Rýni 17. desember 2020

Rýnt í faraldur COVID-19 á Íslandi

2020-12-17

Vísindafólk frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala hafa unnið að gerð spálíkans um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi að beiðni sóttvarnalæknis.

Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa að baki covid.is. Þar er haldið utan um ýmsar upplýsingar varðandi faraldurinn og er heimasíðan uppfærð daglega. Á síðunni má finna tölulegar upplýsingar og gildandi takmarkanir.

Hér að neðan birtum við rýni um þróun smitstuðuls faraldursins ásamt þróun greindra COVID-19 smita hér á landi.

Þetta er síðasta færslan okkar á þessu ári 2020. Á nýju ári munum við einbeita okkur að nýrri líkanagerð miðað við mismunandi útfærslur á aðgerðum í takt við innleiðingu bóluefnis. Niðurstöður verða birtar þegar næg reynsla verður komin til að geta dregið upp mynd af aðstæðum. Við munum miðla skammtímaspám áfram til sóttvarnalæknis og heilbrigðiskerfisins. Þær hafa dugað vel við áætlanagerð varðandi innlagnir.

Samantekt

  • Með auknum umsvifum og hreyfingu fólks aukast líkur á dreifingu veirunnar
  • Álag á landamærin eykst – virðum sóttkví við heimkomu
  • Fjöldi smita undanfarna daga getur ennþá leitt af sér veldisvísisvöxt samkvæmt fræðunum – gleymum okkur ekki.
  • Bylgja í janúar?
  • Góð staða miðað við önnur lönd


Blikur á lofti – umsvif í þjóðfélaginu vaxa 

Það eru blikur á lofti. Vika er til jóla og greinilegt að umsvif eru að vaxa í þjóðfélaginu.

Facebook hefur frá því í júní birt gögn um hvernig hreyfingarmynstur notenda er á tímum Covid19. Í uppfærslu frá 17. desember má sjá hvernig hreyfing fólks á höfuðborgarsvæðinu hefur verið frá 1. mars til 15. desember.

Myndin sýnir hvernig dagleg hreyfing höfuðborgarbúa hefur verið samanborið við hreyfingu þeirra í síðastliðnum febrúar. Það er greinilegt hvað dró úr umsvifum í mars, apríl og maí. Síðan aukast umsvif um sumarið. Aðeins dró úr í lok júlí en tekur kipp uppá við í ágúst. Um miðjan september dregur svo úr umsvifum en hefur byrjað að leita uppá við í nóvember og síðan haldið áfram að vaxa í desember.

Með auknum umsvifum og hreyfingu fólks aukast líkur á dreifingu veirunnar.

Myndin sýnir hvernig dagleg hreyfing höfuðborgarbúa hefur verið samanborið við hreyfingu þeirra í síðastliðnum febrúar.

Önnur aðferð til að meta hreyfinguna á höfuðborgarsvæðinu er þegar landsvæði þess er skipt upp í um það bil 600×600 metra ramma. Dagleg hreyfing höfuðborgarbúa er metin út frá því hversu marga ramma þeir heimsækja. Myndin sýnir daglegt hlutfall þeirra sem halda sig innan eins ramma.

Hlutfall íbúa sem heldur sig innan ramma á höfuðborgarsvæðinu.

Um það bil fjórðungur heldur sig innan ramma í fyrstu bylgju. Svo lækkar það hlutfall en hækkar aftur í þriðju bylgju. Undanfarið hefur þetta hlutfall lækkað aftur sem sýnir að fólk er meira á ferðinni og dreifir sér meira. Nú reynir á að draga úr umsvifum eins og kostur er.

Nánar er farið í aðferðarfræðina í eftirfarandi grein frá Facebook:
https://research.fb.com/blog/2020/06/protecting-privacy-in-facebook-mobility-data-during-the-covid-19-response/

Gögnin má nálgast hér:
https://data.humdata.org/dataset/movement-range-maps

Landamærin

Álag á landamærin eykst. En það þarf ekki að kosta okkur áhyggjur eða aukin smit út í samfélagið á meðan tvöföld skimun með sóttkví á milli er við lýði. Ef fólk velur tvöfalda skimun og virðir 5-daga sóttkví á milli skimana sleppur minna en 1 smit í gegn með hverjum 10.000 ferðalöngum. (Hér miðað við 2% algengi meðal ferðamanna, 75% næmi í fyrstu skimun og 80% næmi í seinni skimun.) Með einfaldri skimun slyppu líklega 50 af hverjum 10.000 í gegn. Það er talsverður fjöldi.

Tvöföld skimun á landamærum með 5 daga sóttkví á milli er líkindafræðilega örugg leið. Mannleg hegðun getur unnið á móti þessu. Sóttkvíin er 5 dagar sem er ekki langur tími miðað við tímann sem fer í umstang og veikindi ef smit lekur út.

Oft var þörf en nú er nauðsyn að virða sóttkvína við heimkomu.

Hvert stefnum við?

Við erum á réttri leið þrátt fyrir bakslög. Fyrst sýnum við eldri spá frá 23. september rétt eftir byrjun 3. bylgju. Vegna aðgerða og þátttöku almennings í aðgerðum hefur faraldurinn fylgt kúrfu í samræmi við fræðin en augljóslega fyrir utan sérstakleg stór og erfið hópsmit. Þau settu okkur af leið um tíma.

Þakka má öflugri smitrakningu og áframhaldandi aðgerðum að tókst að ná utan um þau og faraldrinum niður á ákveðna braut. Það var séð fyrir að þessi bylgja yrði lengi að deyja út. Það er mikilvægt fyrir okkur að vita að bakslög þurfa ekki að slá okkur út af laginu. Þolinmæði og úthald skilar sér.

Spá um þróun COVID-19 á Íslandi frá 23. september. Svartir punktar notaðir til að búa til spá. Appelsínugulir raunveruleg þróun. Dökkblár litur táknar 50% líkindabil. Ljósblár 95% líkindabil.

Næst sýnum við þróun miðað við nýrri spá. Tölur síðustu daga benda til þess að fjöldi smita muni fylgja sviðsmynd frá 26. nóvember, þ.e.a.s. að smitstuðull utan sóttkvíar hafi náð viðsnúningi og hafi lækkað undir 1. Hann er nú undir einum eða 0.55 (öryggisbil 0.23 til 1.11). Á myndinni fyrir neðan hefur tölum síðustu daga verið bætt inn með appelsínugulum lit. Núna er vika til jóla.

Spá um þróun COVID-19 á Íslandi frá 26. nóvember. Svartir punktar notaðir til að búa til spá. Appelsínugulir raunveruleg þróun. Dökkblár litur táknar 50% líkindabil. Ljósblár 95% líkindabil.

En það verður að hafa í huga að okkur hefur ekki tekist að ná smitunum alveg niður og heldur ekki efri mörkum á smitstuðlinum með öryggi undir einn. Fjöldi smita undanfarna daga getur ennþá leitt af sér veldisvísisvöxt samkvæmt fræðunum. Þess vegna verður að fara varlega áfram og ekki gleyma sér þrátt fyrir gott gengi.

Erlendar spár – er janúar bylgja óhjákvæmileg?

IHME líkanið

Spáin frá IHME í Bandaríkjunum (https://covid19.healthdata.org/iceland) gefur til að kynna að við munum ná að halda í við faraldurinn fram í janúar. En að svo taki við ný bylgja. Hér er spá fyrir tilfelli (greind og ógreind). Efsta kúrfan á nýju ári er sviðsmynd án bóluefna. Næsta fyrir neðan er með bóluefnum en að aðgerðum verði létt. Bláa línan er sviðsmynd með bóluefnum og aðgerðum. Neðsta og hagstæðasta línan sýnir sviðsmynd með bólusetningum og yfir 95% grímunotkun. Þessu verður öllu að taka með fyrirvara því ennþá er óvíst með dreifingu bóluefnis.

Spá um þróun COVID-19 (greind og ógreind) tilfelli á Íslandi miðað við mismunandi sviðsmyndir IHME.

Finnska líkanið

Finnska líkanið (https://evolution.ml/demos/npidashboard/) gefur til kynna að hægt verði að ná niður faraldrinum með ítrustu aðgerðum en að núverandi aðgerðir nái að halda í við faraldurinn inní janúar en að svo komi ný bylgja. Hér er ekki tekið tillit til áhrifa bólusetninga ennþá.


Spá um þróun COVID-19 (greind og ógreind) tilfelli á Íslandi miðað við mismunandi sviðsmyndir finnska líkansins.

Það jákvæða er að spárnar gera ekki ráð fyrir að bylgjan nái sömu hæðum og fyrri bylgjur. Vonandi getum við náð jafnvægi og siglt þarna á milli með áframhaldandi núverandi aðgerðum áfram og þeirri öflugu smitrakningu sem er hér á landi. Við teljum að áhrif smitrakningar séu vanmetin fyrir Ísland í þessum alþjóðlegu líkönum.


Hver er staðan miðað við önnur lönd?

Samanborið við önnur lönd hefur gengið vel hér á landi að ná faraldrinum niður. Tíðni tilfella er með því lægsta miðað við löndin í kring.

Ef við værum í svipaðri stöðu og Svíar væru að greinast hér yfir 200 tilfelli á dag sem mundi kaffæra okkur.

Það er skiljanlegt að Danir herði nú sóttvarnir. Hér væru að greinast um 180 tilfelli á dag ef staðan væri svipuð hér.

Mikilvægt er að halda þessari góðu stöðu. Það mun ganga með þátttöku í þeim aðgerðum sem eru virkar núna: persónulegar sóttvarnir, 2 m regla, samkomutakmarkanir við 10 manns. Leggjum áherslu á grímunotkun og reynum að spara ferðir á fjölmenna staði.

Förum í sýnatöku ef við finnum fyrir minnstu einkennum, svo unnt sé að hefja smitrakningu eins fljótt og kostur er. Veiran er lúmsk og getur skotið upp kollinum þó við teljum okkur hafa fylgt öllum leiðbeiningum og teljum okkur örugg. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að af litlum neista verði mikið bál.