2020-08-14 (ISL)

Rýnt í faraldur COVID-19 á Íslandi

2020-08-14

Vísindamenn frá Háskóla Íslands, Embætti Landlæknis og Landspítala hafa unnið að gerð spálíkans um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi að beiðni Sóttvarnalæknis. 

Fyrst berum við saman innanlandssmit í upphafi fyrstu og annarrar bylgju faraldursins, og setjum þróunina nú í samhengi við þróun faraldursins í þeirri fyrri. Í upphafi fyrstu bylgju faraldursins smitaðist töluverður fjöldi einstaklinga erlendis en fyrsta slíka smitið greindist á Íslandi þann 28. febrúar. Fyrsta innanlandssmit fyrstu bylgju greindist svo 4. mars og því er sú dagsetning notuð til viðmiðunar í samanburði að neðan. 

Þar á eftir birtum við spá um þróunina næstu þrjár vikur og mat á smitstuðlinum.

Þróun COVID-19 faraldursins

Mynd 1 sýnir að upphaf annarrar bylgju, þ.e. frá fyrsta innanlandssmiti (23. júlí), líkist að mörgu leyti upphafi þeirrar fyrstu, sem hófst 4. mars. Takmörkun samkoma við 100 manns var innleidd á áttunda degi annarrar bylgju en á tólfta degi í fyrstu bylgju, sem er fjögurra daga munur. Þessi skjótu viðbrögð ásamt því að samkomur voru þá þegar takmarkaðar við 500 manns gætu hafa haft áhrif á þróun faraldursins. Óvissan um framgang faraldursins er þó mikil. Fleiri smit greinast nú utan sóttkvíar og hlutfall smita sem ekki hefur tekist að rekja er einnig hærra nú.  

Mynd 1. Samanburður á upphafi bylgna eitt og tvö.

Spá um þróun COVID-19 faraldursins

Hér á eftir fylgir spá fyrir þróun greindra COVID-19 smita hér á landi næstu þrjár vikurnar. Munur er á framsetningu spár nú og í vor. Við vonum að núverandi framsetning tjái fyrirliggjandi óvissu með skýrari hætti. Í stað þess að sýna líklegri og svartsýnni spá með línum sýnum við nú spábil, sem eru skilgreind með bláum skyggðum svæðum. Dekksta spábilið er reiknað svo að 50% líkur séu á það innihaldi rétt gildi, 60% líkur fyrir það næst dekksta og önnur spábilin miða við 70%, 80%, 90% og 95% líkur.

Við teljum ekki tímabært að spá fyrir um fjölda spítalainnlagna á þessum tímapunkti. Við munum áfram vakta ástandið og ef gögnin benda til hraðari vaxtar þá verður þörfin á spá fyrir spítalainnlagnir endurmetin. Spáin verður næst uppfærð eftir viku.

Mynd 2 sýnir þróun greindra smita á Íslandi frá 23. júlí 2020 og spá fyrir næstu þrjár vikur. Efra grafið sýnir nýgreind smit og neðra grafið sýnir uppsafnaðan fjölda smita. Punktarnir á myndunum sýna raunverulegan fjölda smita samkvæmt nýjustu gögnum. 

Mynd 2. Þróun nýgreindra smita og uppsafnaður fjöldi smita á Íslandi: Spá og raunverulegur fjöldi.

Fjöldinn sem greinist með smit sveiflast milli daga og spáin fyrir næstu þrjár vikur endurspeglar það. Næstu vikur er líklegt að daglegur fjöldi nýgreindra smita verði á milli 0 til 5, en gætu orðið hátt í 12, þótt minni líkur séu á því. Uppsafnaður fjöldi smita er líklegur til að vera um 150 en gæti orðið allt að 300 á næstu þremur vikum. Þetta ræðst af því hversu vel tekst til við að viðhalda opinberum og einstaklingsbundnum sóttvörnum auk mögulegra áhrifa vegna upphafs nýs skólaárs.

Eins og hefur verið raunin bæði í vor og nú getur fjöldi nýgreindra smita sveiflast til frá degi til dags. Stundum greinast fá eða engin smit og á öðrum dögum greinast fleiri en tíu. Mynd 3 er hreyfimynd sem sýnir aðra framsetningu á spá um fjölda daglegra smita næstu þrjár vikurnar. Í hverjum ramma myndarinnar má sjá líkindadreifingu fjölda smita á einum tilteknum degi, það er líkurnar á því að það verði engin smit, eitt smit og svo framvegis. Líkurnar á engum smitum hækka frá 30% í rúmlega 60% en við sjáum að alltaf er möguleiki á að mörg smit greinist.

Mynd 3. Líkindadreifing fjölda daglegra smita næstu þrjár vikurnar.

Spár byggðar á tölfræðilíkönum byggjast á því að læra af fyrirliggjandi gögnum og því byggir spáin til næstu vikna á því að aðstæður séu svipaðar. Á næstu vikum þá hefjast skólar og aðstæður munu breytast. Því er erfitt að segja til um hvort vöxturinn haldist stöðugur til lengri tíma og óljóst er hvort við séum á leiðinni upp í langa og stóra bylgju eða á toppnum á lítilli bylgju.

Þróun í öðrum löndum

Önnur bylgja virðist vera farin af stað hjá ýmsum löndum og er hægt að skoða hér spár okkar varðandi fjölda smita og uppsöfnuð smit í öðrum löndum. 

Dæmi um lönd í annarri bylgju

Mynd 4 sýnir þróun greindra smita ásamt spá í Ástralíu og Ísrael. Í Ástralíu virðist önnur bylgja vera af svipaðri stærð og sú fyrri, þótt hún hafi farið hægar af stað. Hins vegar er önnur bylgjan Í Ísrael stærri og lengri en sú fyrri.

Mynd 4. Þróun greindra smita og spá fyrir lönd í annarri bylgju samanborið við fyrstu bylgju. 

Dæmi um lönd í hægum vexti

Önnur lönd hafa náð tökum á fyrstu bylgjunni en eru núna í hægum vexti. Mynd 5 sýnir að dagleg smit í Þýskalandi og Danmörku virðast vera í hægum en stöðugum vexti, þó sveiflast fjöldi nýgreindra smita milli daga.

Mynd 5.  Þróun nýgreindra smita og spá fyrir lönd í hægum vexti.

Smitstuðullinn

Rifjum upp að smitstuðullinn segir okkur hvað einstaklingur sem sýkist mun að jafnaði smita marga aðra. Ef smitstuðullinn er tveir mun hver og einn að jafnaði sýkja tvo aðra, sem sýkja tvo aðra og svo koll af kolli, margumtalaður veldisvísisvöxtur. Ef smitstuðullinn er hins vegar nægilega lágur (vel undir einum) mun hver og einn að jafnaði smita færri en einn annan og faraldurinn því deyja út.

Mynd 6 sýnir þróun smitstuðulsins frá upphafi fyrstu bylgju fram til dagsins í dag (Aðferðir á bak við útreikninga má nálgast hér). Á myndinni eru nokkrar lykildagsetningar merktar sérstaklega:

  • 16. mars: samkomur takmarkaðar við 100 manns
  • 24. mars: samkomur takmarkaðar við 20 manns 
  • 4. maí: fjöldatakmarkanir rýmkaðar í 50 manns og tilslakanir á samkomum og skólahaldi
  • 15. júní: fjöldatakmarkanir rýmkaðar í 500 manns. Farþegum sem koma til landsins er gefinn kostur á að fara í sýnatöku vegna COVID-19 fremur en að sitja 14 daga í sóttkví
  • 31. júlí: samkomur takmarkaðar að nýju við 100 manns ásamt því að “2-metra reglan” er ekki lengur valkvæð heldur skylda

Á tímabilinu voru einnig gerðar frekari tilslakanir á samkomubanni þar sem fjöldamörk á samkomum hækkuðu í 200 frá 50 (25. maí). Frá með 13. júlí tóku svo fyrirmæli um heimkomusmitgát gildi. Sjá má nánari lýsingu á aðgerðum hérlendis á vef covid.is.

Mynd 6. Smitstuðull.