2020-09-25 (ISL)

Rýnt í faraldur COVID-19 á Íslandi

2020-09-25

Vísindafólk frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala hafa unnið að gerð spálíkans um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi að beiðni sóttvarnalæknis. 

Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa að baki covid.is. Þar er haldið utan um ýmsar upplýsingar varðandi faraldurinn og er heimasíðan uppfærð daglega. Á síðunni má finna tölulegar upplýsingar og gildandi takmarkanir.

Vegna mikillar aukningar í fjölda nýgreindra smita undanfarið teljum við ekki tímbært að birta uppfærða spá á þessari stundu. Við munum áfram fylgjast vel með og verður rýni eða spá uppfærð á næstu dögum. 

Hér að neðan fylgir rýni fyrir þróun greindra COVID-19 smita hér á landi og endar á umfjöllun um smitstuðulinn.

Rýni um þróun COVID-19 faraldursins

Þróun á Íslandi

Vegna mikillar sveiflu í fjölda nýgreindra smita og sýnatöku teljum við ekki tímabært að birta uppfærða spá á þessari stundu. Hins vegar eru tölfræðilíkön eins konar verkfæri og við getum lært margt af því þegar þróunin í fjölda víkur frá spá. Mynd 1 sýnir þróun greindra innanlandssmita á Íslandi frá 1. mars 2020 til dagsins í dag. Á myndinni má sjá að þróun nýgreindra smita hefur breyst umtalsvert og að ný bylgja er hafin. Fjöldi smita síðustu daga fór upp fyrir 95% spábil fyrri spár.

Mynd 1. Þróun nýgreindra smita og spábil á Íslandi. Dekksta spábilið er reiknað svo að 50% líkur séu á að það innihaldi rétt gildi, 60% líkur fyrir það næst dekksta og önnur spábilin miða við 70%, 80%, 90% og 95% líkur.


Smitstuðull

Smitstuðullinn segir okkur hvað einstaklingur sem sýkist mun að jafnaði smita marga aðra. Ef smitstuðullinn er fjórir mun hver og einn að jafnaði sýkja fjóra aðra, sem sýkja fjóra aðra og svo koll af kolli sem birtist í hinum margumtalaða veldisvísisvexti. Ef smitstuðullinn er hins vegar nægilega lágur (vel undir einum) mun hver og einn að jafnaði smita færri en einn annan og faraldurinn því deyja út. Áhugaverð myndræn framsetning á áhrifum smitstuðulsins á þróun faraldursins má sjá hér í grein Inglesby (2020).

Hingað til hafa tilfelli greindra smita hér á landi verið flokkuð í þrjá hópa; smit utan sóttkvíar, smit í sóttkví (vegna útsetningar fyrir smiti) og smit á landamærunum (fyrsta eða önnur skimun). Ljóst er að smit úr þessum mismunandi flokkum hafa mismunandi mikil áhrif á afleidd smit (þ.e. þau smit sem verða út frá upprunalega smitinu), og þannig á smitstuðulinn. Einstaklingur sem greinist á landamærunum fer beint í einangrun og því ólíklegt að hann muni smita nokkurn. Eins má ímynda sér að einstaklingur sem greinist í sóttkví smiti að jafnaði færri en þeir sem greinist utan sóttkvíar, sérstaklega ef rakningarteymið setur viðkomandi í sóttkví skömmu eftir útsetningu. Þetta gefur tilefni til að ætla að smit úr hverjum hópi hafi ólíkan smitstuðul. Með því að flokka smit með þessum hætti gefst tækifæri til að meta smitstuðul þeirra sem eru utan sóttkvíar og fá þannig raunhæfara mat á hver smitstuðullinn er úti í þjóðfélaginu. Á mynd 2 má sjá mat á smitstuðlinum þar sem tekið er tillit til hlutfalls einstaklinga sem greinist í sóttkví (hér má nálgast nánari útlistun á aðferðum).

Mynd 2. Smitstuðull COVID-19 faraldursins á Íslandi þegar tillit er tekið til hlutfalls einstaklinga sem greinist í sóttkví.

Hér er gert ráð fyrir að landamærasmit hafi smitstuðulinn núll, smit sem greinist í sóttkví hafi fastan smitstuðul í gegnum allan faraldurinn og að smitstuðullinn fyrir smit utan sóttkvíar sé breytilegur frá degi til dags. Breytilegi smitstuðullinn metur smithraðann í samfélaginu á hverjum tímapunkti og getur því gefið mynd af áhrifum inngripa og samfélagslegri hegðun.

Þessar niðurstöður benda til þess að í fyrstu bylgju hafi smitstuðullinn náð hápunkti í rúmlega tveimur á meðan hápunkturinn var í kringum fjóra í annarri bylgju og var nýverið yfir sex en á hraðri niðurleið í þriðju bylgju sem gengur yfir núna. Hafa ber í huga að fjöldi smitaðra einstaklinga er þó mun lægri í fyrstu bylgju en í seinni bylgjum. 

Okkar útreikningar benda til þess að núverandi smitstuðull utan sóttkvíar sé um tveir (95% líkindabil: 1-4). Þó óvissan sé talsverð virðist smitstuðullinn fara lækkandi. Þessa lækkun má líklega rekja til öflugrar smitrakningar og aukinnar vitundarvakningar um persónubundnar sóttvarnir í samfélaginu. 

Meðal smitstuðull alls tímabilsins fyrir einstaklinga í sóttkví er metinn 0.6 (95% líkindabil: 0.3-0.9), sem bendir til þess að sóttkví sé mjög öflug sóttvarnaaðgerð. 

Lykildagsetningar aðgerða er varða takmarkanir og tilslakanir (nánari lýsing á aðgerðum hérlendis má sjá á vef covid.is):

  • 16. mars: Samkomur takmarkaðar við 100 manns
  • 24. mars: Samkomur takmarkaðar við 20 manns 
  • 4. maí: Fjöldatakmarkanir rýmkaðar í 50 manns og tilslakanir á samkomum og skólahaldi
  • 25. maí: Fjöldatakmarkanir á samkomum hækkuð í 200 frá 50 manns
  • 15. júní: Fjöldatakmarkanir rýmkaðar í 500 manns. Farþegum sem koma til landsins er gefinn kostur á að fara í sýnatöku vegna COVID-19 fremur en að sitja 14 daga í sóttkví
  • 13. júlí: Fyrirmæli um heimkomusmitgát tóku gildi
  • 31. júlí: Samkomur takmarkaðar við 100 manns ásamt því að “2-metra reglan” er ekki lengur valkvæð heldur skylda
  • 19. ágúst: Farþegum sem koma til landsins er gefinn kostur á að fara í tvær sýnatökur vegna COVID-19 með 5 daga sóttkví á milli fremur en að sitja 14 daga í sóttkví
  • 7. september: Fjöldatakmarkanir á samkomum hækkuð í 200 frá 100 manns

 

Heimild

Inglesby, T.V. (2020). Public Health Measures and the Reproduction Number of SARS-CoV-2. JAMA, 323(21). 2186–2187. doi:10.1001/jama.2020.7878