2020-10-29 (ISL)

Rýnt í faraldur COVID-19 á Íslandi

2020-10-29

Vísindafólk frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala hafa unnið að gerð spálíkans um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi að beiðni sóttvarnalæknis.

Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa að baki covid.is. Þar er haldið utan um ýmsar upplýsingar varðandi faraldurinn og er heimasíðan uppfærð daglega. Á síðunni má finna tölulegar upplýsingar og gildandi takmarkanir.

Hér að neðan birtum við rýni um þróun smitstuðuls faraldursins (þ.e. áætlaður fjöldi einstaklinga sem sýktur einstaklingur utan sóttkvíar smitar að jafnaði)  ásamt þróun greindra COVID-19 smita hér á landi.

Við sýnum líka mögulega þróun miðað við tvenns konar sviðsmyndir og við ætlum að taka svartsýnu sviðsmyndina til skoðunar fyrst og svo þá bjartsýnu.

Sviðsmynd 1: Aðgerðir ná ekki að lækka smitstuðul næstu 10 daga.

Sviðsmynd 2: Núverandi aðgerðir hafa áhrif á smitstuðulinn og hann lækkar en þó ekki meira en miðað við í fyrstu bylgju eftir samkomutakmörk við 20 manns.

Í báðum sviðsmyndum er gert ráð fyrir að smitrakning haldi í við faraldurinn og að 50% smita greinist hjá þeim sem eru þegar í sóttkví.


Smitstuðull

Fyrir viku var smitstuðull á leið niður sem og fjöldi daglegra smita. Spá síðustu viku endurspeglaði þá þróun og væntingar um að vel mundi ganga. Því miður gerðist það ekki. Mikil dreifing er á veirunni og stór hópsmit og lítil í mörgum klösum hafa sett strik í reikninginn.

Við leggjum áherslu á að spá miðar alltaf við forsendur. Síðasta spá var með forsenduna að vel gengi að ná smitstuðli niður en samt með hóflegum hraða. Það er samfélagið sem þarf að vinna saman til að ná honum niður. Sú varð því miður ekki raunin.

Smitstuðullinn utan sóttkvíar á Íslandi er áætlaður 2,1 (spábil 0,8 – 4,4) sjá mynd 1. Við bendum á óvissuna í matinu og að spábilið nær langt upp fyrir 1. Möguleiki á veldisvísisvexti er fyrir hendi. Smitstuðullinn hefur samt ekki náð fyrri hæðum þannig að árangur aðgerða er sýnilegur.

Hlutfall greininga í sóttkví hefur að jafnaði haldist yfir 50% undanfarið. Smitstuðullinn innan sóttkvíar á Íslandi er áætlaður 0,6 (spábil 0,3-0,8). Hér eru efri mörk spábilsins fyrir neðan 1. Það er mikilvægt að hlutfall greininga í sóttkví haldist hátt og gegnir öflug smitrakning lykilhlutverki í því.

Það er einnig mikilvægt að samfélagið allt fylgi tilmælum um sóttvarnir þannig að fjöldi greindra einstaklinga utan sóttkvíar lækki. Þannig gætum við séð smitstuðullinn lækka.


Hvert stefnum við?

Hér sýnum við tvær sviðsmyndir fyrir mögulega þróun faraldursins miðað við ákveðnar forsendur um hvernig smitstuðullinn muni þróast áfram.

Sviðsmynd 1 – ef ekki gengur vel

Aðgerðirnar hafa ekki áhrif á smitstuðulinn strax (t.d. vegna seinkunar á innleiðingu eða lakari þátttöku almennings í sóttvörnum) og hann helst svipaður áfram. Gert er ráð fyrir að smitrakning haldi í við faraldurinn og 50% smita greinist hjá þeim sem eru þegar í sóttkví. Í þessari sviðsmynd er enn meiri óvissa um þróun faraldursins, og smitum gæti rétt eins fjölgað mjög hratt á næstu 10 dögum.

Sviðsmynd 2 – ef árangur næst

Gert er ráð fyrir að aðgerðir hafa áhrif á smitstuðulinn í svipuðum takti og í fyrstu bylgju eftir samkomutakmörk við 20 manns. Gert er ráð fyrir að smitrakning haldi í við faraldurinn og 50% smita greinist hjá þeim sem eru þegar í sóttkví. Vegna dreifingar samfélagssmita (hár smitstuðull) og þó óvissa sé í matinu. Þessi sviðsmynd bendir til þess að fjöldi smita haldist stöðugur næstu daga en gæti svo farið lækkandi eftir 10 daga.


Finnskt líkan um áhrif aðgerða

Við kynntum finnskt líkan um áhrif aðgerða í Kastljósi 5. október. Fjölþjóðlegur hópur sem Risto Miikkulainen PhD leiðir er á bak við líkanið.

Mynd sótt 29. okt. af vefsíðu líkansins sýnir spá fyrir Ísland miðað við ýtrustu aðgerðir (græn brotalína) og núverandi aðgerðir (blá brotalína).

Ýtrustu aðgerðir fela í stuttu máli í sér miklar takmarkanir (lockdown) og þá er spáð að faraldurinn gangi niður og tilfelli verði komin undir 20 á dag aðra viku í desember. Þá fer smituðull hratt undir 1 og spáin tekur á sig svipaða mynd og okkar spá þegar smitstuðull er undir 1, eins og í fyrstu bylgju eftir mánaðarmót mars-apríl.

Með núverandi aðgerðum einum og sér áfram óbreyttum er hins vegar spáð að faraldurinn dragist á langinn og ekki fari að draga úr fjölda smita fyrr en í febrúar 2021. Það þarf því eitthvað að bæta í aðgerðir miðað við þessar spár. En spá miðar alltaf við forsendur og stöðuna miðað við í dag.

 


NPI = Non-Pharmaceutical Interventions (aðgerðir án lyfjainngripa)

Niðurstaða

Sviðsmyndirnar að ofan endurspegla hvert stefnir þegar smitstuðullinn er yfir einum. Það er grundvallaratriði að lækka smitstuðulinn marktækt undir 1 og halda honum þannig. Ef smitstuðull fer yfir 1, er til staðar ástand þar sem smit geta auðveldlega blossað upp og þróað faraldurinn í veldisvísisvöxt. Hertar aðgerðir miða að því að lækka smitstuðulinn og hraðar en forsendur okkar gera ráð fyrir.

Það sem hefur áhrif á smitstuðulinn er okkar hegðun. Munum að þeir sem smitast byrja að smita áður en einkenni koma fram og þess vegna getur hver sem lent í því að smita aðra (https://www.visindavefur.is/svar.php?id=80220#).

En ef þátttaka í aðgerðum er góð, fólk heldur fjarlægð, takmarkar hópamyndun, vinnur heima (þeir sem geta), notar grímur og passar upp á smitvarnir þá tekst þetta. Jafnvel fyrir fyrsta sunnudag í aðventu.