Fréttaskýring hjá Kjarnanum 1. október 2020

Fréttaskýring hjá Kjarnanum 1. október 2020

Þriðja bylgjan: „Þetta verður há tala, það er alveg ljóst“

Nítján dögum eftir að fyrsta tilfellið af COVID-19 var staðfest hér á landi 28. febrúar höfðu samtals 263 greinst með kórónuveiruna. Á fyrstu þrjátíu dögum faraldursins greindust 1.020 manns og áður en þessi fyrsta bylgja fjaraði nær alveg út í byrjun júní höfðu 1.810 manns greinst með COVID-19.

Nú erum við stödd í þriðju bylgjunni sem hófst að mati vísindafólks við Háskóla Íslands 11. september, því sem næst ofan í aðra bylgjuna sem reis hratt en náði ekki miklum hæðum hvað fjölda nýrra smita á dag snertir en olli þó því að aðgerðir voru hertar, bæði innanlands og við landamærin.

Frá því þriðja bylgjan hófst miðað við þessa skilgreiningu eru liðnir nítján dagar og á þeim tíma hafa 540 greinst með veiruna eða 277 fleiri en á jafnlöngum tíma í upphafi þeirrar fyrstu. Það liðu 23 dagar í vetur áður en svipaður fjöldi tilfella hafði greinst.

Í gær, tæpum þremur vikum eftir að þriðja bylgjan hófst, lágu tíu sjúklingar á Landspítalanum með COVID-19, þar af þrír á gjörgæsludeild. 17. mars, um þremur vikum eftir að fyrsta smitið var greint í landinu, voru fimm sjúklingar með COVID-19 á sjúkrahúsi og næstu tvo daga voru þeir sex. Sólarhring síðar, þann 20. mars, var fjöldinn orðinn 10. Einn var þá á gjörgæslu. Flestir voru inniliggjandi samtímis 2. apríl eða 44.

Ef ný spá vísindafólks við Háskóla Íslands gengur eftir mun nýgreindum smitum fara hægt fækkandi á næstu dögum en þó munu áfram um 20-40 manns greinast með veiruna á hverjum degi. Smitin gætu þó orðið hátt í sjötíu daglega þó að á því séu minni líkur. Eftir þrjár vikur eru taldar líkur á því að á bilinu 800 til 1.100 manns hafi greinst með COVID-19 í þessari bylgju faraldursins en fjöldinn gæti þó orðið allt að 1.650. Á þessu tímabili gætu því 300 til 600 manns til viðbótar (og allt að 1.150) átt eftir að smitast af kórónuveirunni.

En vísindafólkið reiknar ekki með að þriðja bylgjan verði gengin yfir eftir þrjár vikur. Líklegra er að hún vari í fimm vikur til viðbótar og þá í tvo mánuði í heild. „Það kæmi mér ekki á óvart,“ segir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, sem fer fyrir rannsóknarteyminu sem gerir spálíkanið. „Og það kæmi mér heldur ekki á óvart að í kjölfarið tæki næsta bylgja við, mögulega í desember, þegar fólk er farið að hegða sér öðruvísi. En um þetta er mjög erfitt og flókið að spá. Jafnvel ómögulegt.“

Auðveldara að spá í vetur

Thor og félagar hófu að vinna spár um þróun faraldursins í mars. Á þeim tíma var gripið til harðari aðgerða en nú eru við lýði. Og við þær aðstæður, þar sem flestir voru heima og skólar, veitingahús og aðrir samkomustaðir lokaðir, var auðveldara að spá fyrir um framhaldið.

Þó að enn sé samkomubann í gildi sem takmarkast við 200 manna hámarksfjölda, og þótt enn sé stór hluti framhalds- og háskólanema í fjarnámi, eru takamarkanir á samkomum fólks vægari en þær voru síðasta vetur. „Og þannig vilja líklega flestir hafa það,“ segir Thor, „en við þær aðstæður geta slys á borð við hópsýkinguna í miðborginni í byrjun september átt sér stað. Það er ekki öfundsvert að finna þarna jafnvægi milli aðgerða og smithættu í þjóðfélaginu en ég hef fulla trú á nálgun sóttvarnalæknis.“

Átti ekki von á bylgju í lok júlí

Slysið, sem Thor talar um, markar upphaf þriðju bylgjunnar. Og hún kom ofan í aðra bylgjuna. Önnur bylgjan reis hratt í byrjun en kúrfan varð fljótt nokkuð flöt, dögum saman voru fá smit að greinast daglega og hún var nokkuð lengi að deyja út.

„Satt best að segja átti ég ekki von á þessari bylgju í lok júlí,“ segir Thor. „Ég átti hins vegar von á bylgju í byrjun september um það leyti sem skólarnir hæfust.“ Það kom enda á daginn en það sem kom þó á óvart við þriðju bylgjuna var hversu hratt hún fór upp, „miklu hraðar heldur en fyrsta bylgjan“.

Og þar erum við stödd núna. Á svipuðum stað og í þeirri fyrstu hvað fjölda greindra smita og innlagna varðar –  en á sama tíma á allt öðrum stað hvað varðar þekkingu á sjúkdómnum og viðbrögð við faraldrinum.

Mun fleiri sýni eru nú tekin, aðferðafræðin sem beitt er við smitrakningu hefur þróast og eflst og COVID-göngudeildin er til staðar með þá þekkingu og reynslu sem hún hefur viðað að sér frá því í vetur. Þá hefur aðkoma Íslenskrar erfðagreiningar að skimun, sem og að raðgreina veirur sem eru að greinast og sjá hvort þær eru af nýjum stofni eða ekki, breytt miklu. „Við höfum lært mjög margt, það er alveg klárt,“ segir Thor þegar hann ber saman bylgju eitt og þrjú.

Í vetur fór smitum ört fjölgandi um þremur vikum eftir að faraldurinn braust út. Þó að sveifla væri í fjölda nýgreindra milli daga var brattur stígandi í virkum smitum. Því má þó ekki gleyma, segir Thor, að þar sem mun fleiri sýni eru tekin nú en í vetur er líklega verið að greina fleiri sem hefðu annars ekki greinst. Það getur því skekkt samanburðinn að einhverju leyti.

Það eru ýmis líkindi með þróuninni í fyrstu og þriðju bylgjunni en þó er margt ólíkt. Ein stærsta breytan er fjöldi sýna.

Tökum nokkur dæmi.

Þann 11. mars greindust 24 ný smit og voru þá samtals 106 í einangrun. Þann dag voru aðeins tekin 149 sýni, aðallega frá fólki sem hafði verið á skíðum í Ölpunum. Það þýðir að 16 prósent sýnanna reyndust jákvæð.

Þann 17. september greindust 22 ný smit og samtals voru þá 92 í einangrun. Þann dag voru tekin 4.009 sýni, þar af um þúsund frá fólki sem sýnt hafði einkenni. Rétt rúmlega hálft prósent sýnanna reyndist því jákvætt.

Staðan breyttist mikið 15. mars er Íslensk erfðagreining fór að skima í samfélaginu fyrir veirunni. Þann dag voru tekin yfir 1.000 sýni og reyndust 20 þeirra jákvæð eða 1,9prósent. Flest sýni í fyrstu bylgjunni voru tekin 5. apríl, tæplega 2.500, og reyndust 74 þeirra jákvæð eða tæp þrjú prósent.

Þriðjudagurinn 24. mars líður okkur Íslendingum sjálfsagt seint úr minni. Þann dag greindust 106 ný smit. Tvær vikur áttu eftir að líða áður en greinilega mátti sjá á tölunum að tekið var að draga úr útbreiðslu faraldursins.

Í nýjustu spá rannsóknarteymis HÍ er sá möguleiki viðraður að ný smit á dag gætu orðið allt að 70 á næstunni. Þetta segir Thor skýrast af því að margir eru nú smitaðir og þá eykst möguleikinn á „sprengjum inn á milli“.

Því það er jú mannlegt athæfi, einstaklingsbundin hegðun, sem er stóri óvissuþátturinn. Það þarf ekki nema einn smitaðan einstakling sem svo smitar annan til að keðjuverkun fari af stað og smitfjöldinn rjúki skyndilega upp. Og þar sem margir einstaklingar eru nú smitaðir er hættan á slíkri fjölgun vissulega fyrir hendi.

Nýr sjúkdómur

Meðalaldur þeirra sem greindist með COVID-19 í fyrstu bylgjunni var hærri en þeirra sem greinst hafa nú þegar í þeirri þriðju. Í vetur gerði rannsóknarteymið sviðsmyndir til að meta álag á heilbrigðiskerfið og lagt var mat á þann fjölda sjúklinga sem þyrfti mögulega á innlögn á sjúkrahús að halda. Þegar upp var staðið reyndust færri þurfa innlögn en reiknað hafði verið með. Það á sér nokkrar skýringar.

Sjúkdómurinn COVID-19 var nýr og fátt um hann vitað. Sérstök göngudeild fyrir COVID-sjúklinga var sett á laggirnar og smám saman fékkst þekking sem varð til þess að færri voru lagðir inn er á leið faraldurinn. Sjúklingar sem voru ekki alvarlega veikir voru heima og starfsfólk göngudeildarinnar fylgdist með líðan þeirra. Þetta olli því að „ánægjuleg frávik“ urðu frá spálíkaninu, að sögn Thors.

Til stendur að draga upp sviðsmyndir af mögulegri þróun faraldursins og álagsins á heilbrigðiskerfið fljótlega en það hefur ekki verið tímabært til þessa. Við vinnuna verður notast við þau gögn sem aflað var í fyrstu bylgjunni og hvaða áhrif göngudeildin hafði á þörf á innlögnum. „Eftir eina til tvær vikur ættum við að vera komin með betri skilning hvernig raunveruleikinn rímar saman við spá fyrir álagið á heilbrigðiskerfið í þessari bylgju.“

Í vetur hélst aldurssamsetning þeirra sem smituðust svipuð allan tímann. Núna er meðalaldur smitaðra lægri. En það kann að breytast og Thor segir reynslu erlendis frá sýna hættuna á því. Í Flórída-ríki hafi til dæmis önnur bylgjan hafist með smitum meðal ungs fólks. En þegar á leið stakk veiran sér niður meðal eldra fólks. „Það er stóra hættan og því má ekki gleyma að líkur á alvarlegum veikindum hækka verulega strax eftir 65-70 ára aldur,“ bendir Thor á. Þeirri staðreynd þurfi að koma rækilega til skila til þeirra sem yngri eru. „Þetta er svo rosalega aldurstengt. Við megum ekki gera lítið úr áhættunni en samt viljum við ekki hræða fólk um of. Annað jafnvægi sem þarf að finna.“

Vextir og höfuðstóll

Með spánni er reiknaður út svokallaður smitstuðull, þ.e. hvað hver og einn sem sýkist er líklegur til að smita marga. Ef smitstuðullinn er fjórir mun hver og einn að jafnaði sýkja fjóra aðra, sem sýkja fjóra aðra og svo koll af kolli. Rannsóknarteymið telur að smitstuðul þeirra sem eru að greinast utan sóttkvíar sé nú um einn (óvissubil 0,3-2,5) og þó að óvissan sé talsverð virðist hann fara lækkandi. Það megi rekja til öflugrar smitrakningar og aukinnar vitundarvakningar um persónubundnar sóttvarnir í samfélaginu.

Í upphafi þriðju bylgjunnar var smitstuðullinn mjög hár, milli 5 og 8. „Það skýrist af hópsýkingum þar sem nokkrir einstaklingar smituðu mjög marga á sama tíma og það voru fáir í heild smitaðir í samfélaginu,“ segir Thor. Stuðullinn náði ekki samskonar hæðum í fyrstu bylgjunni. En að sama skapi var smitið þá útbreiddara sem einnig ýtti af stað bylgju. Thor grípur til samlíkingar við hugtök úr bókfærslu til útskýringar:  Ef þú ert með háan höfuðstól og lága vexti þá er engu að síður ávöxtun. Og ef þú ert með lágan höfuðstól en mjög háa vexti getur ávöxtunin orðið svipuð.

Það sem þetta segir okkur er eftirfarandi: Það þarf ekki nema einn til að koma af stað faraldri, „og það er erfitt að koma þeirri óvissu inn í svona spálíkan,“ segir Thor. „Þess vegna fáum við nýja bylgju svolítið í andlitið.“ Með þeim aðferðum sem notaðar hafa verið hingað til sé ekki hægt að spá með nokkurri vissu hvort og þá hvenær næsta bylgja hefjist en hægt er að spá fyrir um þróun bylgju sem þegar er hafin.

Thor segist ekki enn hafa forsendur til þess að spá fyrir um hvenær bylgjan sem við erum stödd í núna mun fjara út. Og þá ekki heldur hversu margir munu þá hafa sýkst af veirunni. „En tveir mánuðir er líklegt og þetta verður há tala, það er alveg ljóst,“ segir Thor.

Í fyrstu bylgju var hægt að tala um skarpan faraldur. Kúrfan reis hratt, náði hápunkti og hneig svo hratt líka. „En þessar bylgjur sem við gætum átt von á framundan þær verða óútreiknanlegri, einfaldlega vegna þess að aðgerðir eru vægari,“ segir Thor. Augljóslega sé farið varlegar í takmarkanir nú en í vetur sem sé skiljanlegt, m.a. vegna þess að fólk hefur mismunandi þol gagnvart hörðum aðgerðum til langs tíma. En það mun þá þýða að smit geta blossað upp af meiri krafti en í vetur og spár þurfi að endurstilla. Thor segist velta því fyrir sér hvort að raunhæft sé til framtíðar að gera spár sem þessar. Kannski væri eðlilegra að fylgjast með þróun smitstuðulsins – sem segir til um hvort að faraldur sé í veldisvísisvexti og miða aðgerðir við það. „Við erum ekkert hikandi við að endurmeta okkar nálganir og þróa nýjar aðferðir.“

Bóluefni er auðvitað „leikbreytirinn“ sem allir horfa til en þangað til það kemur á markað gæti staðan orðið sú, miðað við reynslu síðustu vikna, að áfram muni ganga á með bylgjum.

Þó að Thor sé sérfræðingur í tölum og líkindum gat hann ekki séð fyrir að faraldurinn myndi þróast á þann veg sem hann hefur nú gert. „Ég kom að þessu í mars og núna er kominn október. Og þetta er ekki búið.“