2020-10-16 (ISL)

Rýnt í faraldur COVID-19 á Íslandi

2020-10-16

Vísindafólk frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala hafa unnið að gerð spálíkans um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi að beiðni sóttvarnalæknis.

Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa að baki covid.is. Þar er haldið utan um ýmsar upplýsingar varðandi faraldurinn og er heimasíðan uppfærð daglega. Á síðunni má finna tölulegar upplýsingar og gildandi takmarkanir.

Hér að neðan birtum við rýni um þróun smitstuðuls faraldursins (þ.e. áætlaður fjöldi einstaklinga sem sýktur einstaklingur utan sóttkvíar smitar að jafnaði)  ásamt mögulegri þróun greindra COVID-19 smita hér á landi næstu 10 daga. Við sýnum líka mögulega þróun miðað við tvenns konar sviðsmyndir:

Sviðsmynd 1: Núverandi aðgerðir hafa áhrif á smitstuðulinn og hann lækkar í svipuðum takti og í fyrstu bylgju eftir samkomutakmörk við 20 manns.

Sviðsmynd 2: Aðgerðir ná ekki að lækka smitstuðul og hann helst á svipaður næstu 10 daga.

Í báðum sviðsmyndum er gert ráð fyrir að smitrakning haldi í við faraldurinn og að 50% smita greinist hjá þeim sem eru þegar í sóttkví.

 

Smitstuðull

Smitstuðullinn utan sóttkvíar á Íslandi er áætlaður 1,4 (spábil 0,5-2,9) sjá mynd 1. Hann hefur farið lækkandi, en miðað við núverandi stöðu má gera ráð fyrir að nokkur fjöldi hafi smitast síðustu daga og muni greinast á næstu dögum. Árangur aðgerða, ef þátttaka almennings er góð, gæti orðið sýnilegur eftir eina viku.

Hlutfall greininga í sóttkví hefur að jafnaði haldist yfir 50% undanfarið. Smitstuðullinn innan sóttkvíar á Íslandi er áætlaður 0,6 (spábil 0,3-0,8). Það er mikilvægt að hlutfall greininga í sóttkví fari hækkandi og gegnir öflug smitrakning lykilhlutverki í því. Það er einnig mikilvægt að samfélagið allt fylgi tilmælum um sóttvarnir þannig að fjöldi greindra einstaklinga utan sóttkvíar lækki. Þannig gætum við séð smitstuðullinn lækka á næstu vikum. Í þeirri stöðu verður hægt að spá til lengri tíma um hámark og hvernig bylgjan muni hnigna.

Á hvaða leið vorum við?

Spáin um þróun fyrstu bylgju varð stöðug um fjórum vikum frá upphafi faraldurs. Segja má að um 1. apríl hafi smitstuðullinn verið að nálgast einn. Eftir það fylgdi bylgjan kúrfu. Hliðstætt gerðist í bylgju 2. Um miðjan ágúst var smitstuðullinn kominn að einum, með fráviki í kringum hópsmit 20. ágúst og hélst rúmlega 1 inní miðjan september. Smitstuðullinn hefði samt þurft að fara undir einn til að ná faraldrinum alveg niður eins og í fyrstu bylgju. Því miður gerðist það ekki.

Með auknum umsvifum í þjóðfélaginu í september náði veiran sér svo á flug með stóru hópsmiti á höfuðborgarsvæðinu í kringum 15. september og við sem samfélag höfum ekki enn náð stjórn á faraldrinum. Það leit út fyrir að tök væru að nást en annað hópsmit í byrjun október setti bókstaflega strik í reikninginn (https://www.ruv.is/frett/2020/10/14/tvaer-storar-hopsykingar-i-thridju-bylgju-faraldursins).

Á neðangreindri mynd má sjá hvernig hópsmitið sveigði faraldurinn frá áætlaðri kúrfu.

Hvert stefnum við?

Hér sýnum við mögulega þróun (spá) miðað við tvær sviðsmyndir

Sviðsmynd 1

Aðgerðir hafa áhrif á smitstuðulinn í svipuðum takti og í fyrstu bylgju eftir samkomutakmörk við 20 manns. Gert er ráð fyrir að smitrakning haldi í við faraldurinn og 50% smita greinist hjá þeim sem eru þegar í sóttkví. Þó óvissan sé mikil, bendir þessi sviðsmynd til þess að smitum fækki heldur á næstu 10 dögum.

 

Sviðsmynd 2

Aðgerðirnar hafa ekki áhrif á smitstuðulinn (t.d. vegna lakari þátttöku almennings í sóttvörnum miðað við í fyrstu bylgju) og hann helst svipaður áfram. Gert er ráð fyrir að smitrakning haldi í við faraldurinn og 50% smita greinist hjá þeim sem eru þegar í sóttkví. Í þessari sviðsmynd er enn meiri óvissa um þróun faraldursins, og smitum gæti rétt eins fjölgað á næstu 10 dögum.

 

Niðurstaða

Sviðsmyndirnar að ofan endurspegla mikla óvissu um hvert stefnir þegar smitstuðullinn er yfir einum. Það er grundvallaratriði að lækka smitstuðulinn undir 1. Meðan hann er yfir 1, er til staðar ástand þar sem smit  geta auðveldlega blossað upp og þróað faraldurinn í veldisvísisvöxt. Það sem hefur áhrif á smitstuðulinn er okkar hegðun. Munum að þeir sem smitast byrja að smita áður en einkenni koma fram og þess vegna getur hver sem lent í því að smita aðra (https://www.visindavefur.is/svar.php?id=80220#). En ef þáttaka í aðgerðum er góð, fólk heldur fjarlægð, vinnur heima (þeir sem geta) og passar upp á smitvarnir þá tekst þetta.