2020-09-29 (ISL)

Rýnt í faraldur COVID-19 á Íslandi

2020-09-29

Vísindafólk frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala hafa unnið að gerð spálíkans um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi að beiðni sóttvarnalæknis. 

Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa að baki covid.is. Þar er haldið utan um ýmsar upplýsingar varðandi faraldurinn og er heimasíðan uppfærð daglega. Á síðunni má finna tölulegar upplýsingar og gildandi takmarkanir.

Hér að neðan byrjum við að birta spá um þróun greindra COVID-19 smita hér á landi og endum á umfjöllun um smitstuðulinn. Fyrsta innanlandssmitið í þriðju bylgju er miðað við 11. september og voru þá samkomur takmarkaðar við 200 manns og eru enn. 

Álag á heilbrigðiskerfið hefur verið að aukast síðustu daga og innlögnum á spítalann vegna COVID-19 farið fjölgandi. Við stefnum á að birta spá fyrir fjölda spítalainnlagna bráðlega ásamt uppfærði spá fyrir þróun greindra smita. 

Spá um þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi

Hér að neðan fylgir spá fyrir þróun greindra COVID-19 smita hérlendis næstu þrjár vikurnar. Eins og áður hefur komið fram er munur á framsetningu spár nú og í vor. Í stað þess að sýna líklegri og svartsýnni spá með línum sýnum við nú spábil, sem eru sýnd með bláum skyggðum svæðum. 

Mynd 1 sýnir þróun greindra innanlandssmita á Íslandi frá 11. september 2020 og spá fyrir næstu þrjár vikur. Efra grafið sýnir nýgreind smit og neðra grafið sýnir uppsafnaðan fjölda smita. Punktarnir á myndunum sýna raunverulegan fjölda smita samkvæmt nýjustu gögnum.

Mynd 1. Þróun nýgreindra smita og spábil á Íslandi. Dekksta spábilið er reiknað svo að 50% líkur séu á að það innihaldi rétt gildi, 60% líkur fyrir það næst dekksta og önnur spábilin miða við 70%, 80%, 90% og 95% líkur.

 

Spáin bendir til þess að nýgreindum smitum fari hægt fækkandi. Á næstu dögum er líklegt að daglegur fjöldi nýgreindra smita verði á bilinu 20 til 40 á dag, en gætu orðið hátt í 70 nýgreind smit, þó á því séu minni líkur. Eftir þrjár vikur er líklegt að daglegur fjöldi nýgreindra smita verði á bilinu 10 til 30 á dag, en gætu orðið hátt í 60 nýgreind smit. Í þessari bylgju er uppsafnaður fjöldi 509 smit (frá 11. september) en eftir þrjár vikur er líklegt að uppsafnaður fjöldi smita verði á bilinu 800 til 1100 tilvik en gæti orðið allt að 1650 smit. 

 

Smitstuðull

Smitstuðullinn segir okkur hvað einstaklingur sem sýkist mun að jafnaði smita marga aðra. Ef smitstuðullinn er fjórir mun hver og einn að jafnaði sýkja fjóra aðra, sem sýkja fjóra aðra og svo koll af kolli sem birtist í hinum margumtalaða veldisvísisvexti. Ef heildarsmitstuðullinn er hins vegar nægilega lágur (vel undir einum) mun hver og einn að jafnaði smita færri en einn annan og faraldurinn því deyja út. Áhugaverð myndræn framsetning á áhrifum smitstuðulsins á þróun faraldursins má sjá hér í grein Inglesby, 2020.

Á mynd 2 má sjá mat á smitstuðlinum utan sóttkvíar eins og lýst var í síðustu rýni (25. september) þar sem tekið er tillit til hlutfalls einstaklinga sem greinist í sóttkví (hér má nálgast nánari útlistun á aðferðum).

Mynd 2. Smitstuðull COVID-19 faraldursins á Íslandi þegar tillit er tekið til hlutfalls einstaklinga sem greinist í sóttkví.

 

Hér er gert ráð fyrir að landamærasmit hafi smitstuðulinn núll, smit sem greinist í sóttkví hafi fastan smitstuðul í gegnum allan faraldurinn og að smitstuðullinn fyrir smit utan sóttkvíar sé breytilegur frá degi til dags. Breytilegi smitstuðullinn metur smithraðann í samfélaginu á hverjum tímapunkti og getur því gefið mynd af áhrifum inngripa og samfélagslegri hegðun.

Okkar útreikningar benda til þess að núverandi smitstuðull utan sóttkvíar sé um einn (95% líkindabil: 0,3-2,5). Þó óvissan sé talsverð virðist smitstuðullinn fara lækkandi. Þessa lækkun má líklega rekja til öflugrar smitrakningar og aukinnar vitundarvakningar um persónubundnar sóttvarnir í samfélaginu. 

Meðal smitstuðull alls tímabilsins fyrir einstaklinga í sóttkví er metinn 0.6 (95% líkindabil: 0,3-0,9), sem bendir til þess að sóttkví sé mjög öflug sóttvarnaaðgerð. 

 

Líkleg þróun daglegra smita

Mynd 3. Líkindadreifing fjölda daglegra smita næstu þrjár vikurnar.

 

Mynd 3 er hreyfimynd sem sýnir aðra framsetningu á spá um fjölda daglegra smita næstu þrjár vikurnar. Í hverjum ramma myndarinnar má sjá líkindadreifingu fjölda smita á einum tilteknum degi, það er líkurnar á því að það verði engin smit, eitt smit og svo framvegis. Líkurnar á engum smitum hækka frá u.þ.b. 8% í um 40% en við sjáum að alltaf er möguleiki á að mörg smit greinist.

 

Heimildir

Inglesby, T.V. (2020). Public Health Measures and the Reproduction Number of SARS-CoV-2. JAMA, 323(21). 2186–2187. doi:10.1001/jama.2020.7878