2020-11-12 (ISL)

Rýnt í faraldur COVID-19 á Íslandi

2020-11-12

Vísindafólk frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala hafa unnið að gerð spálíkans um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi að beiðni sóttvarnalæknis.

Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa að baki covid.is. Þar er haldið utan um ýmsar upplýsingar varðandi faraldurinn og er heimasíðan uppfærð daglega. Á síðunni má finna tölulegar upplýsingar og gildandi takmarkanir.

Hér að neðan birtum við rýni um þróun smitstuðuls faraldursins (þ.e. áætlaður fjöldi einstaklinga sem sýktur einstaklingur utan sóttkvíar smitar að jafnaði)  ásamt þróun greindra COVID-19 smita hér á landi.

Við sýnum hér mögulega þróun faraldursins miðað við mestu líkur séu á að smitstuðull haldist undir einum.

Smitstuðull

Staðan núna

Smitstuðullinn hefur verið á leið niður sem og fjöldi nýrra daglegra smita. Hlutfall greininga í sóttkví hefur að jafnaði haldist vel yfir 50% undanfarið. Smitstuðull utan sóttkvíar er núna 0,4 (0,01 – 2,3). Mikið flökt er í tölunum og reyndar hefur smitstuðull utan sóttkvíar ekki haldist örugglega undir einum síðan í annarri viku apríl og á stuttum kafla í sumar. Efri mörk á matinu á smitstuðlinum ná enn yfir 1.

Smitstuðullinn innan sóttkvíar á Íslandi er áætlaður 0,6 (spábil 0,3-0,8). Hér eru efri mörk spábilsins fyrir neðan 1. Það er mikilvægt að hlutfall greininga í sóttkví haldist hátt og gegnir öflug smitrakning lykilhlutverki í því.

Smitstuðull er ein af mörgum stærðum sem ber að líta til. Hins vegar er ekki er hægt að  fanga stöðu faraldursins í einni tölu. Aðrar mikilvægar stærðir eru t.d. hlutfall jákvæðra í sýnatöku, fjöldi smita í þjóðfélaginu, nýgengi, álag á heilbrigðiskerfið og andlát.

Áhrif aðgerða á smitstuðulinn

Athyglisverð grein um áhrif innleiðinga samfélagsaðgerða og -slakanna á smitstuðulinn var birt í Lancet 22 október:

The temporal association of introducing and lifting non-pharmaceutical interventions with the time-varying reproduction number (R) of SARS-CoV-2: a modelling study across 131 countries

Túlkunin á niðurstöðum er þessi frá höfundum greinarinnar:

Aðgerðir án lyfjainngripa (NPI=non-pharmaceutical interventions) hefta dreifingu veirunnar SARS-CoV-2 [sem veldur COVID-19]. Þetta eru aðgerðir eins og lokanir skóla, vinnustaða, bann opinberra atburða, samkomutakmarkanir við 10 manns, að halda sig heima og takmarkanir á ferðalögum innanlands. Það getur tekið 1 til 3 vikur að sjá áhrifin koma fram. Þessar niðurstöður bæta við gagnreynda þekkingu um áhrif aðgerða á smitstuðulinn.

Ábendingar varðandi skólaopnanir

Sér í lagi er bent á í Lancet greininni að opnanir skóla geti haft einhver áhrif til hækkunar á smitstuðlinum, jafnvel um 20% sem kæmu fram 2 til 3 vikum eftir opnun. En ef smitstuðull er helst lágur væri e.t.v. hægt að setja opnun skóla í forgang þannig að smitstuðull héldist samt undir einum. Svo mætti aflétta í skrefum öðrum takmörkunum. Búast má við einhverju bakslagi í hvert skipti.

Hvert stefnum við?

Gert er ráð fyrir að samfélagslegu aðgerðir sem farið hefur verið út í hér á landi hafa áhrif á smitstuðulinn þannig að mestar líkur séu á að hann haldist undir einum. Gert er ráð fyrir að smitrakning haldi í við faraldurinn og 50% smita greinist hjá þeim sem eru þegar í sóttkví. Þessi sviðsmynd bendir til þess að fjöldi smita geti farið lækkandi en vegna óvissu eru sveiflur mögulegar og að svipaðar tölur og síðustu daga sjáist áfram.

Lárétt rauð lína við 5 innlend smit á dag táknar það viðmið sem þarf að ná til að vera mögulega á grænum lista hjá evrópsku sóttvarnastofnuninni:

https://www.ecdc.europa.eu/en/covid-19/situation-updates/weekly-maps-coordinated-restriction-free-movement

Formlega er viðmiðið < 25 smit á 14 dögum á 100.000 íbúa. Það gera 6,4 smit á dag því (6,4 x 14)/364 x 100 = 24,6. Hlutfall jákvæðra í sýnatöku þarf einnig að vera < 4%, sem það er núna. Hafa ber í huga að smit greind á landamærum telja með í nýgengi innanlands. Því má ekki mikið út af bregða.

Staðan á Norðurlöndunum

Staðan á Norðurlöndunum hefur farið versnandi en viðsnúningur hefur mögulega náðst á Íslandi og Færeyjum.


Staðan í kringum okkur í Evrópu

Vöxtur faraldursins hefur verið mikill í löndunum í kringum okkur og má nefna að nýgengi er mjög hátt í Frakklandi og Póllandi, um 9x hærra en hér. Frakkland hefur mögulega náð toppnum en hlutfall jákvæðra sýna þar er enn hátt (um 15%). Pólland er hins vegar enn á leið upp og hlutfall jákvæðra sýna er yfir 40%. Nýgengi er vaxandi í Þýskalandi. Mögulega hefur náðst viðsnúningur í Hollandi og Bretlandi en nýgengi er hátt (og yfir 3x hærra en hér) þar samt sem áður.


Niðurstaða og hugleiðing um desember

Sviðsmyndin að ofan endurspeglar hvert stefnir þegar smitstuðullinn er undir einum. Það er grundvallaratriði að lækka smitstuðulinn marktækt undir 1 og halda honum þannig. Ef smitstuðull fer yfir 1, er til staðar ástand þar sem hópsmit geta auðveldlega blossað upp og þróað faraldurinn í veldisvísisvöxt. Hertar aðgerðir miða að því að lækka smitstuðulinn og halda honum lágum.

Þar sem vöxtur er á faraldrinum í kringum okkur og von er á meiri ferðalögum í desember er mikilvægt að fara varlega á landamærunum.

Það sem hefur áhrif á smitstuðulinn er okkar hegðun. Munum að þeir sem smitast byrja að smita áður en einkenni koma fram og þess vegna getur hver sem lent í því að smita aðra (https://www.visindavefur.is/svar.php?id=80220#).

En ef þátttaka í aðgerðum er góð, fólk heldur fjarlægð, takmarkar hópamyndun, vinnur heima (þeir sem geta), notar grímur og passar upp á smitvarnir þá tekst þetta. Jafnvel fyrir fyrsta sunnudag í aðventu.