Greinar

Rýnt í faraldur – spálíkan um COVID-19 faraldurinn á Ísland

Grein birtist í Fréttablaðinu 26.03.2020

Brynjólfur Gauti Jónsson, doktorsnemi í líftölfræði við Háskóla Íslands
Birgir Hrafnkelsson, prófessor í tölfræði við Háskóla Íslands
Jón Magnús Jóhannesson, sérnámslæknir í lyflækningum, Landspítala
Jóhanna Jakobsdóttir, lektor í líftölfræði við Háskóla Íslands
Sigríður Haraldsd. Elínardóttir, sviðstjóri heilbrigðisupplýsinga við Embætti Landlæknis
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands
Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði við Háskóla Íslands

COVID-19 faraldurinn skelfir nú heimsbyggðina með mikilli ógn við almannaheill og efnahag þjóða. Viðbrögð þjóða við þessum faraldri hafa verið mjög mismunandi, allt frá algjöru útgöngubanni og lokun landamæra til nokkurs andvaraleysis í upphafi, en þó hafa flestar þeirra þurft að grípa til umfangsmikilla aðgerða þegar á hólminn er komið.

Viðbrögð íslenskra yfirvalda hafa frá upphafi einkennst af yfirvegun og fagmennsku, en þar hafa sóttvarnalæknir, landlæknir oga almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ráðið för með reynslu sinni og fræðilegri þekkingu.  Frá fyrsta þekkta smiti á Íslandi hefur verið reynt að hefta útbreiðslu veirunnar með því að taka sýni úr einstaklingum með þekkta smitáhættu og einkenni öndunarfærasýkingar, einangra staðfest tilfelli, rekja samskipti smitaðra og beita sóttkví meðal venslaaðila smitaðra og þeirra sem koma frá skilgreindum áhættusvæðum. Nú er svo komið að meirihluti nýrra staðfestra smita er meðal fólks í sóttkví sem minnkar líkurnar á áframhaldandi smiti. Jafnframt hefur verið lögð mikil áhersla á að vernda eldri borgara og fólk með undirliggjandi sjúkdóma fyrir smiti með öllum tiltækum ráðum – en það mun líklega verða ein mikilvægasta aðgerðin í að stemma stigu við alvarlegum afleiðingum faraldursins.  Þá hefur samkomubann verið sett á frá 16. mars til 13. apríl með enn frekari takmörkunum frá 24. mars.

Þetta eru vissulega fordæmalausar aðstæður og vísindaleg þekking á þessum nýtilkomna vágesti þar að leiðandi takmörkuð. Sóttvarnalæknir kallaði því núverið til liðs vísindamenn frá Háskóla Íslands, Embætti Landlæknis og Landspítala til að gera spálíkan um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi á næstu vikum sem gæti nýst við ákvarðanatöku um samfélagsleg viðbrögð og skipulag heilbrigðisþjónustu.

Hópurinn kynnti fyrstu niðurstöður vinnu sinnar á upplýsingafundi með Almannavörnum 18. mars sl. og á fundi með forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra degi síðar. Spálíkanið hefur síðan verið uppfært tvívegis og helstu niðurstöður eru eftirfarandi (miðast við gögn birth 25/3 2020):

  • Gert er ráð fyrir því að á meðan faraldurinn gengur yfir muni rúmlega 1500 manns á Íslandi verið greindir með COVID-19, en talan gæti náð nær 2300 manns skv. svartsýnustu spá.
  • Gert er ráð fyrir að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm (sjá Mynd 1; hér miðað við 21 veikindadag) nái hámarki í fyrstu viku apríl og verði sennilega um 1200 manns, en gæti náð 1700 manns skv. svartsýnustu spá.
  • Gert er ráð fyrir að á meðan að faraldurinn gengur yfir muni um rúmlega 100 manns þarfnast innlagnar á sjúkrahúsi, en gæti náð yfir 160 manns skv. svartsýnustu spá.
  • Mesta álag á heilbrigðisþjónustu vegnasjúkrahúsinnlagna verður um eða eftir miðjan aprílen þá er gert ráð fyrir að tæplega 60 einstaklingar geti verið inniliggjandi á sama tíma (Mynd 1), en svartsýnasta spá er nær 90 einstaklingar.
  • Gert er ráð fyrir því að á tíma faraldursins muni um 13 einstaklingar veikjast alvarlega, þ.e. þurfa innlögn á gjörgæslu, á tímabilinu en svartsýnasta spá er 23 einstaklingar.
  • Mesta álag á gjörgæsludeildir gæti orðið í annarri viku apríl, en þá er búist við því að 5 manns liggi þar inni á sama tíma, en samkvæmt svartsýnustu spá gætu það verið 11 manns.

Finna má upplýsingar um forsendur og frekari niðurstöður spálíkansins á covid.hi.is. Spálíkanið verður uppfært reglulega með nýjum upplýsingum á meðan á faraldrinum stendur. Vegna fámennis geta tölurnar um fjölda tilfella breyst mikið frá degi til dags sem hefur áhrif á niðurstöðurnar.  Þá skal hafa í huga að spáin snýr að þeim tilfellum COVID-19 sem greinast út frá verklagsreglum og skilgreiningum innan íslensks heilbrigðiskerfis og Íslenskrar erfðagreiningar.  Gera má ráð fyrir töluverðum fjölda óstaðfestra tilfella þar sem margir með sjúkdóminn eru einkennalitlir eða alveg einkennalausir.   Einnig eru uppi sjónarmið um það hvort rétt sé að taka með í líkanið einstaklinga sem smituðust erlendis.  Við höfum valið að gera það hér vegna þess að mikilvægasta markmið þessarar greiningar er að áætla mögulegt álag á heilbrigðiskerfið og þessir einstaklingar og venslamenn þeirra eru, rétt eins og þeir sem smitast innanlands, skjólstæðingar þess.

Spáin um fjölda einstaklinga sem veikjast alvarlega miðast við aldursdreifingu meðal staðfestra tilfella COVID-19 á Íslandi. Rannsóknir á tilfellum COVID-19 í Kína benda til þess að alvarleiki sjúkdómsins sé verulega aldurstengdur (https://www.imperial.ac.uk/media/imperial-college/medicine/sph/ide/gida-fellowships/Imperial-College-COVID19-NPI-modelling-16-03-2020.pdf) , en há tíðni smita meðal aldraðra á Ítalíu er ein líkleg skýring á hárri tíðni alvarlegra veikinda og dauðsfalla þarlendis. Veruleg breyting á aldurssamsetningu smitaðra hér á landi, t.d. aukin útbreiðsla meðal aldraðra, gæti á stuttum tíma fært niðurstöður líkansins upp í efri mörk þess, þ.e.a.s. að svartsýnustu spá.  Því má segja að þó ráðstafanir sóttvarnalæknis og yfirvalda til að vernda þennan hóp reynast mörgum erfiðar, þá séu þær afar mikilvægar.

Þróun COVID-19 faraldursins meðal þeirra þjóða sem hafa gengið í gegnum hann á undan okkur (t.d. Kína, Suður-Kórea og Ítalía) bendir til þess að með umfangsmiklum samfélagsíhlutunum sé unnt að hemja veldisvöxt faraldursins. Það er mikilvæg vísbending þrátt fyrir að óvissa ríki enn um hvað gerist þegar losað er um þessi miklu samfélagshöft.  Við þessa óvissu þurfum við væntanlega að búa næstu mánuði.

Ítrekað hefur verið bent á nauðsyn þess að þjóðir heims setji í forgang greiningu sjúkdómsins en alþjóðlegur samanburður á skimunartíðni á COVID-19 (þ.e. fjölda greiningarprófa miðað við höfðatölu) sýnir að hún er hæst á Íslandi og Færeyjum (ourworldindata.org/covid-testing). Þrátt fyrir þennan fjölda greiningarprófa þá er hlutfallsleg aukning COVID-19 tilfella á síðustu vikum einna lægst hérlendis í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir (Mynd 2).  Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og borgarfulltrúi, komst einnig að sambærilegri niðurstöðu í eigin greiningu með öðrum forsendum (www.deiglan.is).  Samantekið benda þessar niðurstöður til þess að viðbrögð sóttvarnalæknis og íslenskra yfirvalda í að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19 hér á landi hafi hingað til verið árangursrík.