2020-09-17 (ISL)

Rýnt í faraldur COVID-19 á Íslandi

 

2020-09-17

Vísindafólk frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala hafa unnið að gerð spálíkans um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi að beiðni sóttvarnalæknis. 

Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra halda úti covid.is. Þar er haldið utan um ýmsar upplýsingar varðandi faraldurinn og er heimasíðan uppfærð daglega. Á síðunni má meðal annars finna tölulegar upplýsingar og gildandi takmarkanir.

Vegna aukningar í fjölda nýgreindra smita teljum við ekki tímbært að birta uppfærða spá á þessari stundu. Við munum áfram fylgjast vel með og verður rýni eða spá uppfærð á næstu dögum.


Rýni um þróun COVID-19 faraldursins

Þróun á Íslandi

Hér að neðan fylgir rýni fyrir þróun greindra COVID-19 smita hér á landi næstu þrjár vikurnar. Eins og áður hefur komið fram er munur á framsetningu spár nú og í vor. Við vonum að núverandi framsetning tjái fyrirliggjandi óvissu með skýrari hætti. Í stað þess að sýna líklegri og svartsýnni spá með línum sýnum við nú spábil, sem eru skilgreind með bláum skyggðum svæðum. Dekksta spábilið er reiknað svo að 50% líkur séu á að það innihaldi rétt gildi, 60% líkur fyrir það næst dekksta og önnur spábilin miða við 70%, 80%, 90% og 95% líkur.

Vegna aukningar í fjölda nýgreindra smita teljum við ekki tímabært að birta uppfærða spá á þessari stundu. Hins vegar eru tölfræðilíkön eins konar verkfæri og við getum lært margt af því þegar spár rætast ekki. Við berum því hér innanlandssmit undanfarinna daga saman við síðustu spá frá því 9. september. Mynd 1 sýnir þróun greindra innanlandssmita á Íslandi frá 23. júlí 2020 til dagsins í dag. Efra grafið sýnir nýgreind smit og neðra grafið sýnir uppsafnaðan fjölda smita. Myndin sýnir spána eins og hún var 9. september. Í gerð þeirrar spár var tekið tillit til svartra punkta, en rauðir punktar tákna innanlandssmit frá og með 10. september. 

Mynd 1. Þróun nýgreindra smita og uppsafnaður fjöldi smita á Íslandi.

Á myndinni eru vísbendingar um að þróun nýgreindra smita hefur breyst. Fjöldi smita síðustu tvo daga fer upp fyrir 95% spábilið (ólíklega spá). Efri mörkin á slíkum spábilum eru reiknuð þannig að 97.5% punkta skulu falla undir þau mörk eða 39 af hverjum 40 punktum. Því má búast við því að stökum sinnum fari fjöldinn upp fyrir þau mörk vegna tilviljunar einnar, en þó teljum við að fjöldinn sem hefur greinst undanfarna tvo daga verði ekki útskýrður á þann hátt.