Rýni 4. desember 2020

Rýnt í faraldur COVID-19 á Íslandi

2020-12-04

 

Vísindafólk frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala hafa unnið að gerð spálíkans um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi að beiðni sóttvarnalæknis.

Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa að baki covid.is. Þar er haldið utan um ýmsar upplýsingar varðandi faraldurinn og er heimasíðan uppfærð daglega. Á síðunni má finna tölulegar upplýsingar og gildandi takmarkanir.

Hér að neðan birtum við rýni um þróun smitstuðuls faraldursins ásamt þróun greindra COVID-19 smita hér á landi.

Smitstuðull

Staðan núna

Smitstuðull utan sóttkvíar er núna 1,8 (0,7 – 3,9).


Hvert stefnum við?

Enn ríkir óvissa um það hvert við stefnum í faraldrinum.

Tölurnar benda til þess að fjöldi smita muni fylgja sviðsmynd frá 26. nóv, þ.e.a.s. að smitstuðull utan sóttkvíar hafi náð viðsnúningi og fari svo að lækka. Þetta þýðir að hagstæð þróun frá 1. nóvember mun halda áfram þrátt fyrir bakslagið í lok nóvember. Á myndinni fyrir neðan hefur tölum síðustu daga verið bætt inn með appelsínugulum lit.

En vegna hækkandi fjölda smita síðustu viku nóvember skapaðist mikil óvissa og veldisvísisvöxtur varð möguleiki. Ef smitstuðullinn helst áfram yfir 1 þá getum við auðveldlega misst stjórn á faraldrinum. Myndin fyrir neðan sýnir þá sviðsmynd frá 26. nóv með tölum síðustu daga í appelsínugulum lit.


Spá frá London School of Hygiene & Tropical Medicine, London

Spá LSHTM tekin af síðunni hér er svipuð. Mikil óvissa er um hvernig þróunin verður. Þeirra mat á smitstuðlinum (samtals utan og innan sóttkvíar) hefur samt lækkað frá síðustu viku 1,5 (0,01 – 4,4) og er núna 1.1 (0,2-4,1). En öryggisbil eru víð svo túlka þarf varlega. Smitstuðull yfir einum táknar veldisvísisvöxt og hallast spá þeirra heldur á þann veg að smitum fjölgi.

Sjá https://epiforecasts.io/covid/posts/national/iceland/


Hver er staðan miðað við önnur lönd?

Samanborið við önnur lönd hefur gengið vel hér á landi að ná faraldrinum niður. Tíðni tilfella er með því lægsta miðað við löndin í kring. Mikilvægt er að halda þeirri stöðu. Það mun ganga með þátttöku í þeim aðgerðum sem eru virkar núna: persónulegar sóttvarnir, 2 m regla, samkomutakmarkanir við 10 manns. Leggjum áherslu á grímunotkun og reynum að spara ferðir á fjölmenna staði.