Rýnt í faraldur COVID-19 á Íslandi
2020-12-11
Vísindafólk frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala hafa unnið að gerð spálíkans um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi að beiðni sóttvarnalæknis.
Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa að baki covid.is. Þar er haldið utan um ýmsar upplýsingar varðandi faraldurinn og er heimasíðan uppfærð daglega. Á síðunni má finna tölulegar upplýsingar og gildandi takmarkanir.
Hér að neðan birtum við rýni um þróun smitstuðuls faraldursins ásamt þróun greindra COVID-19 smita hér á landi.
Hvert stefnum við?
Við erum á réttri leið þrátt fyrir bakslög. Fyrst sýnum við eldri spá frá 23. september rétt eftir byrjun 3. bylgju. Vegna aðgerða og þátttöku almennings í aðgerðum hefur faraldurinn fylgt kúrfu í samræmi við fræðin en augljóslega fyrir utan sérstaklega stór og erfið hópsmit. Þau settu okkur af leið um tíma.
Þakka má öflugri smitrakningu og áframhaldandi aðgerðum að tókst að ná utan um þau og faraldrinum niður á ákveðna braut. Það var séð fyrir að þessi bylgja yrði lengi að deyja út. Það er mikilvægt fyrir okkur að vita að bakslög þurfa ekki að slá okkur út af laginu. Þolinmæði og úthald skilar sér.
Næst sýnum við þróun miðað við nýrri spá. Tölur síðustu daga benda til þess að fjöldi smita muni fylgja nýrri sviðsmynd frá 26. nóv, þ.e.a.s. að smitstuðull utan sóttkvíar hafi náð viðsnúningi og hafi lækkað undir 1. Hann er nú undir einum. Á myndinni fyrir neðan hefur tölum síðustu daga verið bætt inn með appelsínugulum lit. Við sjáum hvað stutt er til jóla.
Nauðsynlegt er að hafa í huga að okkur hefur ekki tekist að ná smitunum alveg niður. Hluti einstaklinga er einkennalaus og fólk getur smitað án þess að sýna einkenni. Því er auðveldlega hægt að missa af smitum. Fjöldi smita undanfarna daga getur ennþá leitt af sér veldisvísisvöxt samkvæmt fræðunum. Þess vegna verður að fara varlega áfram og ekki gleyma sér þrátt fyrir gott gengi.
Landamærin
Álag á landamærin eykst. En það þarf ekki að valda auknum smitum út í samfélagið á meðan tvöföld skimun með sóttkví á milli er við lýði. Ef fólk velur tvöfalda skimun og virðir sóttkví sleppur minna en 1 smit í gegn af 10.000 ferðalöngum. (Hér miðað við 2% algengi meðal ferðamanna, 75% næmi í fyrstu skimun og 80% næmi í seinni skimun.) Það er afar mikilvægt að virða sóttkvína við heimkomu. Með einfaldri skimun slyppu líklega 50 af hverjum 10.000 í gegn. Það er talsverður fjöldi.
Hver er staðan miðað við önnur lönd?
Samanborið við önnur lönd hefur gengið vel hér á landi að ná faraldrinum niður. Tíðni tilfella er með því lægsta miðað við löndin í kring. Meira segja lægri tíðni en hjá varkáru vinum okkar Finnum.
Mikilvægt er að halda þeirri stöðu. Það mun ganga með þátttöku í þeim aðgerðum sem eru virkar núna: persónulegar sóttvarnir, 2 m regla, samkomutakmarkanir við 10 manns. Leggjum áherslu á grímunotkun og reynum að spara ferðir á fjölmenna staði. Förum í skimun ef við finnum fyrir minnstu einkennum.