Fréttaskýring hjá RÚV 5. október 2020

Fréttaskýring hjá RÚV 5. október 2020

Finnskt spálíkan spáir fyrir um áhrif sóttvarnaaðgerða

Finnskir vísindamenn hafa þróað spálíkan sem notar gervigreind til að spá fyrir um áhrif sóttvarnaaðgerða á þróun faraldursins. Thor Aspelund, prófessor í tölfræði og einn af aðstandendum íslenska spálíkansins, var gestur í Kastljósi kvöldsins. Hann útskýrði, með hjálp spálíkansins, hvernig faraldurinn hefði getað magnast á ógnarhraða ef aðgerðir hér á landi hefðu ekki verið hertar.
.
Thor segir að gagnasöfnun hafi aldrei verið meiri en nú í faraldrinum. „Það er verið að safna upplýsingum um fjölda tilfella í ótal löndum og það eru ótal aðgerðir í gangi, mismargar á hverjum stað, og það er erfitt fyrir mannshugann að sjá fyrir sér alla möguleikana,“ segir hann.
.
Finnskir vísindamenn athuga nú hvort hægt sé, með hjálp gervigreindar, að finna góða samsetningu á aðgerðum til þess að annað hvort lágmarka fjölda tilfella eða til að skoða hvaða áhrif það hefur að draga úr aðgerðum.

Thor kynnti til sögunnar þrjár sviðsmyndir til þess að útskýra hvernig líkön Finnanna spá fyrir um áhrif sóttvarnaaðgerða.

Sviðsmynd 1

Á fyrstu myndinni má sjá hvernig faraldurinn myndi þróast með ráðstöfunum sem miða að því að útrýma smitum eins hratt og hægt er án tillits til samfélagslegra áhrifa.

Á efri myndinni er spálíkan sem sýnir hvernig faraldurinn þróast.

Bláa punktalínan sýnir hvað hefði getað gerst ef aðgerðir hefðu ekki verið hertar. Samkvæmt líkaninu hefði veiran haldið áfram að breiðast út og um 200 tilfelli mælst á dag um áramótin.

Græna punktalínan spáir fyrir um þróun faraldursins að teknu tilliti til hörðustu aðgerða, mun harðari en þeirra sem við búum við, til dæmis með heimasóttkví og lokuðum skólum. Með slíkum aðgerðum gerir líkanið ráð fyrir að smitum hefði strax fækkað hratt.

Sviðsmynd 2

Á næstu mynd hér að neðan má sjá sviðsmynd tvö, þar sem er gert ráð fyrir hörðum aðgerðum sem þó taka tillit til samfélagslegra þátta. Þar er farinn millivegur sem appelsínugula línan sýnir.

Í þessari sviðsmynd afléttir líkanið lokun skóla en heldur inni lokun vinnustaða. Thor veltir því upp hvort við ættum að taka það alvarlegar hér á landi að hafa vinnustaði lokaða.

Í þessari sviðsmynd eru samkomutakmarkanir, allt yfir 1.000 manna samkomur bannaðar. Þá er engin heimasóttkví en þó er skimun á landamærum. Athygli vekur að kúrfan virðist ekki fara mikið hægar niður en í fyrstu sviðsmyndinni þar sem aðgerðirnar voru mun harðari.

Sviðsmynd 3

Þriðja sviðsmyndin, sem sjá má hér að neðan, sýnir hvernig faraldurinn myndi þróast ef ekkert væri að gert. Þar er faraldurinn óheftur og fjöldi smita fer upp í 3.000 á dag.