Rýnt í faraldur COVID-19 á Íslandi
2020-11-26
Vísindafólk frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala hafa unnið að gerð spálíkans um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi að beiðni sóttvarnalæknis.
Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa að baki covid.is. Þar er haldið utan um ýmsar upplýsingar varðandi faraldurinn og er heimasíðan uppfærð daglega. Á síðunni má finna tölulegar upplýsingar og gildandi takmarkanir.
Hér að neðan birtum við rýni um þróun smitstuðuls faraldursins ásamt mögulega þróun greindra COVID-19 smita hér á landi.
Smitstuðull
Staðan núna
Smitstuðullinn (R) var á leið niður sem og fjöldi nýrra daglegra smita. Leitnin hefur tekið ákveðna stefnu niður á við eftir að samkomutakmarkanir við 10 manns voru settar. Hlutfall greininga í sóttkví hefur að jafnaði haldist vel yfir 50% undanfarið. Smitstuðull var kominn í 0,4 (0,01 – 2,3) í síðustu rýni 12. nóv.
Smitstuðullinn hækkar þegar smitandi einstaklingar eru meira á ferðinni og fleiri á ferðinni til að taka á móti veirunni.
Smitstuðull utan sóttkvíar hefur leitað uppá við síðustu daga er núna 1,5 (0,01 – 4,4). Efri mörk á matinu á smitstuðlinum ná vel yfir 1.
Hvert stefnum við
Þó leitnin í nýjum smitum hafi verið niður á við þá ætti hækkun á smitstuðli að vera okkur viðvörun. Ef smitstuðull fær að haldast yfir einum er óvissan mjög mikil og hætta miklum vexti til staðar. Þegar greind smit eru fá þá getur ein hópsýking haft þau áhrif að smitstuðull hækkar snögglega en ef tekst að ná utan um slíka sýkingu þá lækkar stuðullinn aftur. Hins vegar hefur ekki teksti að rekja nýgreind smit síðustu daga og óvissan því mikil. Það er allt í boði en árangur veltur á okkur.
Næstu dagar munu skera úr um hvort tekst ná böndum utan um þessi smit þannig smituðullinn leiti aftur niður. Hækkandi tölur ættu ekki að koma á óvart fyrri hluta desember, á meðan tök nást aftur.
Spá frá London School of Hygiene & Tropical Medicine, London
Spá LSHT tekin af síðunni hér er svipuð. Mikil óvissa um hvernig þróunin verður. Þeirra mat á smitstuðlinum eða R (samtals) er 1.5 (0,2-7,7). https://epiforecasts.io/covid/posts/national/iceland/
Niðurlag
Virkni í þjóðfélaginu fer vaxandi. Nýgengi faraldursins er hátt eða hann í miklum vexti víða í kringum okkur. Við þurfum að fara varlega næstu 3 vikur til þess að vikan í kringum jól verði ekki undirlögð af samfélagssmitum.