2020-08-11 (Færslur)

 

2020-08-11

Vísindamenn frá Háskóla Íslands, Embætti Landlæknis og Landspítala vinna að gerð spálíkans um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi að beiðni Sóttvarnalæknis.

Ekki er enn tímabært að birta spá fyrir aðra bylgju COVID-19 faraldursins á Íslandi. Á næstu vikum verður slík spá birt sem gæti nýst við ákvarðanatöku um samfélagsleg viðbrögð og skipulag heilbrigðisþjónustu í annarri bylgju faraldursins.

Við berum saman innanlandssmit í upphafi fyrstu og annarrar bylgju faraldursins, og setjum þróunina nú í samhengi við þróun faraldursins í þeirri fyrri. Í upphafi fyrstu bylgju faraldursins smitaðist töluverður fjöldi einstaklinga erlendis en fyrsta slíka smitið greindist á Íslandi þann 28. febrúar. Fyrsta innanlandssmit þeirrar bylgju greindist svo 4. mars og því er sú dagsetning notuð til viðmiðunar í samanburði að neðan.

Mynd 1 sýnir að upphaf annarrar bylgju, þ.e. frá fyrsta innanlandssmiti (23. júlí), líkist að mörgu leyti upphafi þeirrar fyrstu, sem hófst 4. mars. Takmörkun samkoma við 100 manns var innleidd á áttunda degi annarrar bylgju en á tólfta degi í fyrstu bylgju, sem er fjögurra daga munur. Þessi skjótu viðbrögð ásamt fyrrgildandi takmörkunum við 500 manns gætu haft áhrif á þróun faraldursins.  Óvissan um framgang faraldursins er þó mikil. Fleiri smit greinast utan sóttkvíar og fjöldi órakinna smita er hærri.

 

Rifjum upp að smitstuðullinn segir okkur hvað einstaklingur sem sýkist mun að jafnaði smita marga aðra. Ef smitstuðullinn er tveir mun hver og einn að jafnaði sýkja tvo aðra, sem sýkja tvo aðra og svo koll af kolli, margumtalaður veldisvísisvöxtur. Ef smitstuðullinn er hins vegar nægilega lágur (vel undir einum) mun hver og einn að jafnaði smita færri en einn annan og faraldurinn því deyja út. 

Mynd 2 sýnir þróun smitstuðulsins frá upphafi fyrstu bylgju fram til dagsins í dag (Aðferðir á bak við útreikninga á smitstuðli má nálgast hér). Nú í upphafi annarrar bylgju er smitstuðullinn hár, jafnvel hærri en þegar faraldurinn var í miklum vexti í fyrstu bylgjunni. Þetta gæti útskýrst af því að stærri hluti greindra smita í fyrstu bylgju var innfluttur en haminn í sóttkví. Á myndinni eru nokkrar lykildagsetningar merktar sérstaklega:

  • 16. mars: samkomur takmarkaðar við 100 manns
  • 24. mars: samkomur takmarkaðar við 20 manns 
  • 4. maí: fjöldatakmarkanir rýmkaðar í 50 manns og tilslakanir á samkomum og skólahaldi
  • 15. júní: fjöldatakmarkanir rýmkaðar í 500 manns. Farþegum sem koma til landsins er gefinn kostur á að fara í sýnatöku vegna COVID-19 fremur en að sitja 14 daga í sóttkví
  • 31. júlí: samkomur takmarkaðar að nýju við 100 manns ásamt því að “2-metra reglan” er ekki lengur valkvæð heldur skylda

Á tímabilinu voru einnig gerðar frekari tilslakanir á samkomubanni þar sem fjöldamörk á samkomum hækkuðu í 200 frá 50 (25. maí). Frá með 13. júlí tóku svo fyrirmæli um heimkomusmitgát gildi. Sjá má nánari lýsingu á aðgerðum hérlendis á vef covid.is.


Mynd 3
sýnir samanburð á innanlandssmitum í bylgjum eitt og tvö, bæði daglegum smitum og uppsöfnuðum, og samanburð við óheftan veldisvísisvöxt. Myndin gefur til kynna svipaðan vöxt nú og í fyrstu bylgju og minnir okkur líka á þær miklu sveiflur sem geta verið í fjölda nýgreindra smita frá degi til dags.