Grein sem birtist í Morgunblaðinu 19. ágúst 2020
mbl.is/Arnþór
Það er erfitt að spá og þá sérstaklega um framtíðina, á gárungurinn að hafa sagt. Þetta hafa vísindamenn við Háskóla Íslands, Embætti landlæknis og Landspítalans sannarlega fengið að reyna á eigin skinni síðustu mánuði. Frá því kórónuveirufaraldurinn fór af stað hér á landi í byrjun mars hefur níu manna rannsóknarteymi unnið baki brotnu að því að kortleggja þróun faraldursins hér á landi, og raunar um heim allan. Blaðamaður settist niður með fimm þeirra á skrifstofum Landlæknis á sjöttu hæð á Höfðatorgi.
„Þetta byrjar á því að ég fæ tölvupóst frá Þórólfi, líklega 8. eða 9. mars,“ segir Unnur Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði. Hún var þá nýkomin heim frá Svíþjóð þar sem hún hefur haft annan fótinn, og jafnvel báða, frá því hún hóf doktorsnám í faraldsfræði við Karolinska sjúkrahúsið árið 1999.
Þórólfur sá er auðvitað Guðnason sóttvarnalæknir, andlit baráttunnar gegn kórónuveirunni. „Þórólfur áttar sig fljótt á að þessi faraldur er meiriháttarmál og hefur samband við okkur til að vera einhvers konar vísindalegur bakhjarl þannig að við getum lagt til okkar þekkingu og aðferðir til þess að skilja þróun faraldursins,“ segir Unnur. Markmiðið í upphafi var skýrt: Að geta séð fyrir með einhverra daga eða vikna fyrirvara ef hætta væri á að heilbrigðiskerfið myndi ekki ráða við tiltekinn fjölda.
Unnur A. Valdimarsdóttir prófessor í faraldsfræði – mbl.is/Golli
Líkanið sem notast er við er svokallað logistískt vaxtarlíkan, sem hópurinn útskýrir að sé nokkuð staðlað þegar unnið er með útbreiðslu faraldurs. Það geri ráð fyrir hröðum vexti í upphafi sem beygi síðar af og líði út af. Thor Aspelund er prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands. „Það var tala nokkuð illa um gögnin frá Kína en ég held að það sé ósanngjarnt. Í byrjun mars birtu þeir tölur um vöxt og hnignun faraldursins í 29 af 33 héruðum Kína. Alls staðar var þessi sama hegðun miðað við að það væri tekið á faraldrinum. Þá fór hann upp og niður aftur eftir þessum lógistíska vexti,“ segir Thor. Því hafi legið beinast við að miða við slíkt líkan.
Þar með er þó ekki ekki sagt að vöxturinn verði jafnhraður í öðrum löndum eða að það hægist á honum á sama hátt heldur einungis að lögunin á ferlinum sé á því formi, útskýrir Jóhanna Jakobsdóttir, lektor í líftölfræði við HÍ. Það hversu hraður og langvinnur vöxturinn er og hve hratt hann beygir af, stýrist af svokölluðum stikum (e. parameter) en stóri hausverkurinn í allri líkanagerð er að reyna að leggja mat á þessa stika út frá fyrirliggjandi gögnum.
Ekki spáð fyrir um áhrif inngripa fyrir fram
„Þar kemur Binna-galdurinn inn,“ segir Thor og bendir á Brynjólf Gauta Jónsson, doktorsnema í tölfræði, sem óhætt er að segja að hafi fengið eldskírn sem fræðimaður í vinnu við líkanið. Brynjólfur útskýrir að hefðbundin vinnubrögð séu að gera eitt líkan fyrir hvert land og reyna að meta feril fyrir hvert og eitt í sínu horni. Það hafi hins vegar ekki verið ákjósanlegt fyrir jafnfámennt ríki og Ísland þar sem tilfelli eru tiltölulega fá, og þá sérstaklega í upphafi faraldurs.
„Það sem við gerðum er að búa til eitt líkan fyrir um hundrað lönd í heiminum og reyna að meta á heimsvísu einhverja stika sem við getum hugsað sem meðalvöxt í heiminum.“ Eftir það sé hægt að vinna að því að búa til sérstaka stika fyrir Ísland, og raunar hvaða land sem er, með því að toga líkan hvers lands að meðaltalinu. „Það er oft talað um að over-fitta ekki gögnin. Við viljum að líkanið læri af því sem er búið að gerast í landinu, en það má ekki vera of nákvæmt. Þá spáir það kannski illa fyrir um framtíðina,“ segir Brynjólfur.
Ljósmynd/Lögreglan
En til hvaða gagna er litið, og hvaða áhrif hafa atriði á borð við hertar samkomutakmarkanir, tveggja metra reglu og það að skólahald hefjist brátt á ný eftir sumarfrí?
Í raun er bara litið til þess hversu mörg tilfelli hafa greinst í hinum ýmsu löndum og hvenær þau koma fram, útskýrir Thor. „Það er til dæmis ekki innbyggt að 20 manna samkomuhámark muni gera hitt eða þetta heldur lesum við það bara út úr þróuninni.“ Aðgerðir sem gripið er til hafi áhrif á þróun faraldursins, þ.e. fjölda nýrra tilfella, og þau áhrif komi fram í næstu spám sem gerðar eru. „Þannig að við erum ekki að spá fyrir um inngripin fyrir fram.“
Eftir því sem faraldrinum vindur fram og haldbærari upplýsingar liggja fyrir verður auðveldara að spá fyrir um þróunina og óvissan minnkar. Þannig var í fyrstu spánni, sem birtist 19. mars, gert ráð fyrir að um 1.000 manns myndu smitast af veirunni fyrir lok maímánaðar, samkvæmt miðgildisspá, en 2.000 samkvæmt svartsýnustu spá (97,5% spábil). Aðeins fjórum dögum síðar hafði spáin verið uppfærð og nú gert ráð fyrir um 2.000 smitum samkvæmt miðgildisspá en 6.000 samkvæmt svartsýnustu spá. Um miðjan apríl hafði hins vegar fengist skýrari mynd á faraldurinn og spáð var tæplega 1.800 smitum fyrir lok maímánaðar, en 2.100 samkvæmt svartsýnustu spá. Heildarfjöldinn reyndist síðar 1.807.
Skólaopnun stærsta áhyggjuefnið
Eftir nærri þrjá tíðindalitla mánuði, maí, júní og bróðurpart júlí, skaut veiran upp kollinum að nýju 23. júlí. Skyndilega var endi bundinn á sumarfrí rannsóknarteymisins og vinna hafin við að gefa út nýja spá, sem birtist síðasta föstudag. Ólíkt eldri spám er þar aðeins horft þrjár vikur fram í tímann. Gert er ráð fyrir að smitum fækki hægt og bítandi næstu þrjár vikur en að allan þann tíma megi búast við nýjum smitum á degi hverjum.
Aðspurður segir Thor að helsti lærdómurinn sem megi draga af síðustu spá sé sú að núverandi bylgja sé flatari en sú síðasta, en gæti á móti orðið lengri. „Við erum ekki að fara að sjá 80-100 smit á dag eins og við sáum í síðustu bylgju, sem var náttúrlega alveg skelfilegt,“ segir Thor. Ekki er laust við að hrollur fari um viðstadda þegar þau rifja upp 24. mars þegar 106 smit greindust innanlands.
En hvað þyrfti að koma til, til þess að nýja spáin yrði út úr öllu korti?
„Eitthvað í kringum skólaopnanir,“ svarar Thor að bragði. Ég hef mestar áhyggjur af því þegar samskiptin í þjóðfélaginu aukast.“ Undir það tekur Jóhanna. „Núna tekur módelið mið af einhverjum meðalsamskiptum. Svo opnast skólarnir og krakkarnir fara í íþróttir og allt þetta og fólk fer kannski í líkamsræktarstöðvar. Þá gæti allt einu komið einhvers konar vendipunktur sem líkanið okkar veit náttúrlega ekkert af,“ segir hún. Það sé stærsta óvissan núna og því nauðsynlegt að vera á varðbergi fyrir því að þróun veirunnar geti beygt af ferlinum og uppfæra líkanið eftir því.
Teyminu er tíðrætt um „aðra bylgju“ faraldursins og verði einhverjum á að kalla hana „seinni bylgju“ leiðréttir hann sig í snatri. Hér er sumsé gert ráð fyrir að bylgjurnar verði fleiri.
En hversu lengi gera vísindamennirnir ráð fyrir að þurfa að uppfæra líkanið? Má gera ráð fyrir þriðju, fjórðu og fimmtu bylgju?
„Ég hugsa að við verðum bara hér á meðan það er ekki komið bóluefni,“ segir Sigríður Haraldsd. Elínardóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá embætti landlæknis, og hin taka undir. „Ég er alveg bjartsýn á bóluefni sko, og það verði ekki tíu bylgjur,“ segir Sigríður. „Kannski í mesta lagi fjórar,“ segir hún brosandi. Af hlátri samstarfsmanna hennar að dæma var þetta grín, en blaðamaður er ekki viss. Hann hefði betur spurt.
Nýjum uppgötvunum miðlað í rauntíma
Eitt af því sem gerir baráttuna við kórónuveirufaraldurinn frábrugðna hefðbundnu vísindastarfi er hraðinn. Um allan heim keppast vísindamenn við að rýna í ólíkar tegundir veirunnar, reyna betur að skilja hana og síðast en ekki síst að koma bóluefni á markað. Asinn kann að vera frábrugðinn þeirri mynd sem fólk hefur af fræðastörfum almennt, þar sem yfirvegun, vandvirkni og jafnvel hægagangur, gætu komið upp í huga fólks.
„Þetta er allt öðruvísi vinna en við vísindamenn erum vanir,“ segir Unnur, og er hún þó faraldsfræðingur. Vísindamenn séu vanari því að glíma við hægari faraldra, svo sem hjartasjúkdóma, offitu, geðraskanir og þar fram eftir götunum. Mörg ár eða jafnvel áratugir geti þá liðið frá því vísindagreinar eru birtar þar til niðurstöður þeirra fara að hafa áhrif út fyrir fræðasamfélagið. „Núna erum við að miðla upplýsingum til ákvarðanavalda og almennings nánast í rauntíma.“ Öll eru þau sammála um að það sé ólíkt því sem þau eru vön en engu að síður skemmtilegt og ögrandi.