Grein birtist í Fréttablaðinu 26.03.2020
Brynjólfur Gauti Jónsson, doktorsnemi í líftölfræði við Háskóla ÍslandsBirgir Hrafnkelsson, prófessor í tölfræði við Háskóla Íslands
Jón Magnús Jóhannesson, sérnámslæknir í lyflækningum, Landspítala
Jóhanna Jakobsdóttir, lektor í líftölfræði við Háskóla Íslands
Sigríður Haraldsd. Elínardóttir, sviðstjóri heilbrigðisupplýsinga við Embætti Landlæknis
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands
Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði við Háskóla Íslands COVID-19 faraldurinn skelfir nú heimsbyggðina með mikilli ógn við almannaheill og efnahag þjóða. Viðbrögð þjóða við þessum faraldri hafa verið mjög mismunandi, allt frá algjöru útgöngubanni og lokun landamæra til nokkurs andvaraleysis í upphafi, en þó hafa flestar þeirra þurft að grípa til umfangsmikilla aðgerða þegar á hólminn er komið. Viðbrögð íslenskra yfirvalda hafa frá upphafi einkennst af yfirvegun og fagmennsku, en þar hafa sóttvarnalæknir, landlæknir oga almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ráðið för með reynslu sinni og fræðilegri þekkingu. Frá fyrsta þekkta smiti á Íslandi hefur verið reynt að hefta útbreiðslu veirunnar með því að taka sýni úr einstaklingum með þekkta smitáhættu og einkenni öndunarfærasýkingar, einangra staðfest tilfelli, rekja samskipti smitaðra og beita sóttkví meðal venslaaðila smitaðra og þeirra sem koma frá skilgreindum áhættusvæðum. Nú er svo komið að meirihluti nýrra staðfestra smita er meðal fólks í sóttkví sem minnkar líkurnar á áframhaldandi smiti. Jafnframt hefur verið lögð mikil áhersla á að vernda eldri borgara og fólk með undirliggjandi sjúkdóma fyrir smiti með öllum tiltækum ráðum – en það mun líklega verða ein mikilvægasta aðgerðin í að stemma stigu við alvarlegum afleiðingum faraldursins. Þá hefur samkomubann verið sett á frá 16. mars til 13. apríl með enn frekari takmörkunum frá 24. mars. Þetta eru vissulega fordæmalausar aðstæður og vísindaleg þekking á þessum nýtilkomna vágesti þar að leiðandi takmörkuð. Sóttvarnalæknir kallaði því núverið til liðs vísindamenn frá Háskóla Íslands, Embætti Landlæknis og Landspítala til að gera spálíkan um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi á næstu vikum sem gæti nýst við ákvarðanatöku um samfélagsleg viðbrögð og skipulag heilbrigðisþjónustu. Hópurinn kynnti fyrstu niðurstöður vinnu sinnar á upplýsingafundi með Almannavörnum 18. mars sl. og á fundi með forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra degi síðar. Spálíkanið hefur síðan verið uppfært tvívegis og helstu niðurstöður eru eftirfarandi (miðast við gögn birth 25/3 2020):
- Gert er ráð fyrir því að á meðan faraldurinn gengur yfir muni rúmlega 1500 manns á Íslandi verið greindir með COVID-19, en talan gæti náð nær 2300 manns skv. svartsýnustu spá.
- Gert er ráð fyrir að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm (sjá Mynd 1; hér miðað við 21 veikindadag) nái hámarki í fyrstu viku apríl og verði sennilega um 1200 manns, en gæti náð 1700 manns skv. svartsýnustu spá.
- Gert er ráð fyrir að á meðan að faraldurinn gengur yfir muni um rúmlega 100 manns þarfnast innlagnar á sjúkrahúsi, en gæti náð yfir 160 manns skv. svartsýnustu spá.
- Mesta álag á heilbrigðisþjónustu vegnasjúkrahúsinnlagna verður um eða eftir miðjan aprílen þá er gert ráð fyrir að tæplega 60 einstaklingar geti verið inniliggjandi á sama tíma (Mynd 1), en svartsýnasta spá er nær 90 einstaklingar.
- Gert er ráð fyrir því að á tíma faraldursins muni um 13 einstaklingar veikjast alvarlega, þ.e. þurfa innlögn á gjörgæslu, á tímabilinu en svartsýnasta spá er 23 einstaklingar.
- Mesta álag á gjörgæsludeildir gæti orðið í annarri viku apríl, en þá er búist við því að 5 manns liggi þar inni á sama tíma, en samkvæmt svartsýnustu spá gætu það verið 11 manns.